19.10.1945
Efri deild: 11. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

36. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Ingvar Pálmason:

Þetta frv. hefur nú verið afgr. frá hv. Nd. með nokkrum hraða. Af því að ég mun vera sá eini í hv. d., sem þekki tildrög þessa máls, vil ég lýsa þeim með nokkrum orðum. — Eins og menn sjá á frv., er atvmrh. veitt með því heimild til að friða einstaka staði fyrir dragnótaveiði. Orsökin til þess, að þetta mál er fram komið og því hraðað svo gegnum þingið, er sú, að syðst í Suður-Múlasýslu er fjörður einn, sem einu nafni er kallaður Álftafjörður. Að vísu eru þeir tveir, Álftafjörður og Hamarsfjörður, og er innsigling þröng. Hefur það mátt heita hrein undantekning, ef dragnótabátur hefur farið inn í firði þessa til veiða. En nú í sumar skeði það, að dragnótabátar fóru að sækja þangað veiði, ausa upp mjög miklu af kola, jafnvel svo að skipti hundruðum karfa á dag. En kolinn var allur smár, svo að úr hundrað körfum fengu menn oft og einatt aðeins 8–10 körfur, sem var markaðshæfur koli, og þó alveg á takmörkum. Þetta gekk nú svo langt, að sjómenn bundust samtökum á Austurlandi um það að veiða ekki á þessum slóðum. Mér er kunnugt, að það voru sjómennirnir sjálfir, sem gerðu þetta. Þessi samtök komust á að nafninu til, en voru ekki haldin. Þess vegna er það, að við þm. S.-M. fengum áskorun frá sjómönnum þar eystra um að reyna svo fljótt sem hægt væri að fá með sérstökum l. friðaðan Álftafjörð og Hamarsfjörð fyrir dragnótum.

Nú þótti líklegt, til þess að málið gæti gengið hratt fram, að bera það fram í því formi, sem það er nú, að veita atvmrh. heimild til þess að friða þau svæði, þar sem beztar eru uppeldisstöðvar fyrir flatfisk, því að búast mætti við, ef borið hefði verið fram sérstakt lagafrv. um að friða t. d. Álftafjörð, að ástæða þætti til að taka þetta til athugunar einnig á fleiri stöðum, sem gæti orðið til þess að tefja fyrir málinu eða jafnvel hindra framgang þess með öllu. Því var þetta ráð tekið, og því skaut atvmrh. á fundi með sjútvn. beggja deilda til að undirbúa þessi mál, og þar var till. einróma borin fram í þessu formi.

Það, sem menn kynnu hér helzt að óttast, væri það, að þessu yrði misbeitt af ráðh., en það er sleginn varnagli við því með því, að það er aðeins eftir till. Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans, að ráðh. getur gefið út slíkt bann, og mér er persónulega kunnugt um það, að núv. fiskifræðingur Íslands hefur verið heldur tregur til að auka mikið hömlur á dragnótaveiði, og ég þykist vita, að hann muni ekki leggja til, að þessi heimild sé notuð nema þar, sem hann telur það brýna nauðsyn. Ég held, að sama megi segja um Fiskifélag Íslands, að bæði því og fiskideild atvinnudeildar háskólans sé vel trúandi til þess að hafa þetta ákvörðunarvald með höndum. Ég get sagt það persónulega og hef á því nokkurn kunnugleika, að ég álít, að það sé mjög víða, a. m. k. á Austfjörðum og Norðurlandi, sem hagar nokkuð líkt til, þó að hvergi sé um jafnstórar uppeldisstöðvar að ræða og á þessum fjörðum. Ég get nefnt til dæmis Lónsfjörð í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu, þar sem hagar mjög líkt til. Það hefur að vísu ekki komið til, að dragnótaveiði hafi verið stunduð þar, en hitt er öllum vitanlegt, að þar er allmikið af smákola. Þá má líka nefna Nýpsfjörð og Vopnafjörð, þar sem alveg er víst, að stendur svipað á og í þessum tilfellum. Ég get þessa hér vegna þess, að mér þykir sennilegt, að þróunin verði í þá átt, að reynt verði að friða uppeldisstöðvar helzt allt í kringum landið. Ég held því, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé mikið spor í rétta átt, og að því er snertir þetta einstaka tilfelli, sem veldur því, að þetta frv. er flutt og með því kappi að reyna að koma því gegnum þingið á sem stytztum tíma, er einmitt það, að það er alveg víst, að ef haldið verður áfram nú í haust þessum veiðum í Hamarsfirði, — því að þeim heldur áfram enn þá, — þá verður gersamlega þurrkað upp ungviðið og ekki til mikilla nytja meiri hlutinn af því, því að það er áreiðanlega ekki of mikið í lagt að segja, að allt að 9/10 af því, sem veiðist, fari forgörðum.

Ég vil svo fyrir hönd sjútvn. þessarar hv. d. mæla með því, að frv. verði samþ., og vænti þess, að hv. d. vilji afgr. það í dag, svo að það geti orðið að lögum.