08.03.1946
Sameinað þing: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Hermann Jónasson.:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram þá ósk, að tvær þáltill., sem ég flyt hér ásamt öðrum, verði teknar hér á dagskrá sem allra fyrst. Þær eru nú orðnar, að ég ætla, þriggja mánaða gamlar. Önnur þessara till., sem ég flyt ásamt hv. þm. N.-Ísf., er um það, að Þjóðverjum, sem giftir eru íslenzkum konum, verði leyft að koma hingað heim. Það stendur svo sérstaklega á með þessa till., að seinast þegar hún var hér til umr., rétt áður en þingi var frestað, þá var því lofað af hæstv. fors.-og utanrrh., að hún skyldi verða tekin fyrir, strax og þing kæmi saman á ný, og það munu einnig hafa fallið ummæli frá hæstv. forseta í svipaða átt. Nú hefur orðið á þessu alllangur dráttur, og þarf ég ekki að lýsa því, svo að ég vænti þess, að hæstv. forseti sjái sér fært að taka þessa till. á dagskrá meðal hinna allra fyrstu mála, því að það er orðinn miklu meiri dráttur á þessu máli en ég sem flm. get gert mig ánægðan með. Svipað er um hina till., sem er um athugun á framferði íslenzkra manna varðandi styrjöldina. Hún er orðin þetta gömul, og þó að það liggi ekki fyrir sérstakt loforð um fyrirtekt hennar, þá er eðlilegt, vegna þess hve langt er síðan hún kom fram, að hún verði afgr. með viðunandi hraða, og vil ég því eindregið óska þess, að hún verði tekin á dagskrá sem allra fyrst. Þessa ósk vil ég bera fram á þessu stigi, en ef hæstv. forseti sér sér ekki fært að verða við þeirri ósk, þá yrði ég að biðja hann að bera það undir atkv. þm., en ég ber ekki þá ósk fram nú, en mun bera hana fram á næsta fundi, ef málið verður þá ekki tekið fyrir.