06.11.1945
Neðri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

73. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Í 8. gr. l. frá 16. jan. 1943 er ákvæði þess efnis, að l. skuli falla úr gildi, þegar 6 mánuðir séu liðnir frá lokum ófriðarins. Almennt mun talið, að honum hafi verið lokið 8. maí. Ættu l. þá ekki að falla síðar úr gildi en 8. þ. m. Nú var ljóst, að ekki yrði hjá því komizt að halda einhverjum hömlum áfram á innflutningi til landsins og sömuleiðis að reglur yrðu áfram um meðferð gjaldeyris. Um mánaðamótin sept.–okt. var skipuð 5 manna n. til þess að gera till. um, hvernig þessum málum skyldi skipað, eftir að l. frá 1943 féllu úr gildi. Þessi n. hefur starfað nokkurn tíma. Ég get upplýst, að von mun vera á till. frá n. í þessari viku, sennilega strax á morgun. Ætti því ekki að líða á löngu, áður en hægt er að leggja fyrir þingið till. um framtíðartilhögun á þessum málum. En þar sem ekki er hægt að komast hjá að hafa í gildi einhver ákvæði í þessum efnum, þá hefur verið gripið til þess ráðs, að ákvæði l. frá 1943 verði framlengd óbreytt til 1. des. næstkomandi, því að þess er vænzt, að fyrir þann tíma verði hægt að fá samþ. á Alþ. l. um framtíðarskipun þessara mála.

Ég vænti, að um þetta verði ekki ágreiningur á Alþ., og vil leyfa mér að mælast til þess við hæstv. forseta, að hann að loknum þessum fundi haldi aðra fundi, svo að frv. geti náð fram að ganga.