06.11.1945
Neðri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

73. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar bara til að heyra það álit hæstv. fjmrh. greinilegar en kom fram í ræðu hans, hvort hann telji öruggt, að frv. það, sem von er á í þessu máli, verði afgr. fyrir 1. des. Tíminn er 3 vikur. Það hefur komið fyrir á Alþ. áður, að menn hafa talið öruggt, að búið yrði að afgr. fjárl. fyrir ákveðinn dag og sett í því sambandi l. til bráðabirgða, sem síðan hefur orðið að framlengja, af því að ekki tókst að afgr. fjárl. fyrir þann tíma, sem gert var ráð fyrir. Hæstv. ráðh. veit, hvað þessu nál. líður, og kannske líka, eftir hvað langan tíma má vænta, að hæstv. stj. hafi komið sér saman um málið, því að hún mun ekki verða alls kostar einhuga um það, eftir því sem ég bezt veit, og svo hvað lengi Alþ. muni þurfa að hafa málið til meðferðar. Það er leiðinlegt, þegar maður gerir sér áætlun um að afgr. eitthvert mál fyrir. vissan tíma og setur l., sem eiga að gilda á meðan, en verður síðan að framlengja þau á ný, vegna þess að ekki tekst að afgr. l. á tilsettum tíma. Ég bendi aðeins á þetta, og þó að ég hafi ekki sérstaka kunnugleika á þessu máli, þá yrði ég ekki fyrir vonbrigðum, þó að það yrði jafnvel kominn 10. des., þegar þetta væntanlega frv. væri orðið að lögum.