06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

72. mál, strandferðaskip

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Frv. það, sem hér liggur fyrir, um kaup á nýjum strandferðaskipum, er flutt af samgmn. þessarar hv. d. eftir ósk samgmrh., eins og í grg. segir, en frv. er í sjálfu sér að óskum til gamall kunningi samgmn. Alþ., eða öllu heldur samvn. samgm. á Alþ., því að um fleiri ár samfleytt hefur það verið svo, að engin samvn. hefur fjallað um hin miklu og erfiðu mál í sambandi við strandferðir og fljótabátagöngur, þó að hvað eftir annað hafi komið til, að ógerlegt væri að fullnægja þeim þörfum, sem þar knúðu á dyr, eða ráða flóabátasamgöngunum, sem eru hluti af strandsiglingunum, til farsælla lykta, nema hinni reglulegu strandgæzlu, eða strandferðum, sem eru á vegum Skipaútgerðar ríkisins með stærri skipum, væri komið í betra horf. Og það hefur ekki reynzt kleift að koma þeim siglingum í viðunandi horf nema á þann hátt, sem nú er fram komið frá þeirri mþn., sem var skipuð til að athuga málið og gera till. um það. Samgmn. varð því að sjálfsögðu við þeim tilmælum ráðh, að flytja þetta mál og styðja að framgangi þess, því að það er óhætt að segja, að það mun vera sameiginlegur áhugi allra hv. þm., sem af þessu máli hafa haft nokkur afskipti.

Ég tel, að sú grg., sem hér er prentuð með frv., sé fullnægjandi skýring á málinu með þessum formála, sem ég nú hef flutt um það, hvernig málið í upphafi er til komið, og vil ég því ekki lengja umr., en taka undir það, sem hæstv. ráðh. hefur farið fram á, að málinu verði af knýjandi ástæðum hraðað svo sem mest má verða. Að öðru leyti legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.