06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

72. mál, strandferðaskip

Páll Zóphóníasson:

Ég er hræddur um, að hæstv. ráðh. sé eitthvað farinn að bila á minni. Á síðasta þ. fór fram nafnakall fyrst um heimild til stj. um að reyna að semja um kaup eða smíði á nýju skipi á stærð við Esju. Í annan stað voru greidd atkv. um að reyna að semja um kaup eða smíði á strandferðabát fyrir Austfirði. Þegar búið var að fella þetta hvort tveggja, var borin upp tillaga um að heimila hæstv. ríkisstj., þegar fyrir lægi frá mþn. álít, sem þá var von á að kæmi á hverri stundu, að verja fé til að fá byggt skip eða keypt til strandferðanna, eftir því sem n. þá lagði til. Stj. vildi ekki fá heimild frá Alþ. til þess að mega semja um kaup á skipunum, og þegar að nafnakallinu kom, kallaði forsrh. úr sæti sínu og sagði: „Við þurfum ekki að láta stjórnarandstæðinga segja okkur fyrir verkum og fellum tillöguna.“ Og um það stóðu þeir saman með nafnakalli, stjórnarflokkarnir. Þess vegna segi ég það, að það eru sinnaskipti að óska nú að fá heimild til að kaupa skipin. Ég vísa hæstv. ráðh. á að athuga orðalag till. og athuga nafnakallið, þá getur hann sjálfur dæmt um, hver sinnaskiptum hafi tekið.