08.11.1945
Efri deild: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

72. mál, strandferðaskip

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af samgmn. Nd. samkv. minni ósk og fer í stuttu máli fram á það, að stj. heimilist smíði þriggja strandferðaskipa erlendis fyrir reikning ríkissjóðs. Er gert ráð fyrir, að eitt af þessum skipum verði af svipaðri stærð og Esja, en hin tvö verði minni, um 300 rúmlestir, og verði þau aðallega notuð sem vöruflutningaskip.

Aðdragandi þessa máls og forsaga er í stuttu máli á þá leið, að gegn þrálátum og ítrekuðum óskum víða að um það, að bætt yrði úr skipun strandferðanna við landið, var borin fram og samþ. á Alþ. þáltill. fyrir 2 árum, sem fór í þá átt, að skipuð yrði mþn. til þess að gera athugun á þessum málum og leggja síðan till. sínar fyrir ríkisstj. Þessi n. hefur setið á rökstólum og skilað áliti, sem prentað er sem fskj. I. með frv. Nm. þessarar mþn. hafa nú að vísu skilað áliti að mestu hver í sínu lagi, en þó í meginatriðum mjög á einn veg, a. m. k. um byrjunarframkvæmdir. Þeir leggja þrír til, að skipakosturinn verði aukinn á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir í frv., en sá fjórði fer ekki lengra í sinni till. en það, að hann leggur til, að fyrst verði athugað, hvað þessi skip mundu kosta, en síðan verði gerð rekstraráætlun um rekstur strandferðaskipanna, bæði hinna væntanlegu skipa og eins þeirra, sem eru í eigu Skipaútgerðarinnar, og síðan verði teknar ákvarðanir, er þessar upplýsingar liggi fyrir. Þess vegna var það, að strax og ráðuneytinu barst þetta nál., voru gerðar ráðstafanir til, að aflað væri upplýsinga um, hvort hægt væri að fá þessi skip keypt og fyrir hvaða verð. Forstjóri Skipaútgerðarinnar fór utan þessara erinda og gerði ráðstafanir til, að erlendar skipasmíðastöðvar gerðu tilboð í skipin, og sömuleiðis voru gerðar ráðstafanir til að fá upplýsingar og verðtilboð frá Norðurlöndum. Þessar upplýsingar og verðtilboð liggja nú fyrir og er prentað á fskj. II., þar sem talin eru upp nokkur af tilboðunum, sem bárust, eða 4 tilboð í farþegaskipið og 3 í strandferðabátana. Sömuleiðis er prentuð sem fskj. III. rekstraráætlun, miðað við það, að þessi skip verði fengin. Loks er svo fskj. IV., sem er rekstrarreikningur fyrir strandferðirnar 1944 eins og hann leit út eða aðalreikningur úr rekstrarreikningi strandferðanna.

Að öllu þessu athuguðu hefur stj. samþ. að óska eftir, að henni verði veitt heimild til þess að kaupa þau skip, sem hér um ræðir. Málið hefur einnig verið borið undir þann nm., sem ég gat um í upphafi, að vildi ekki að svo stöddu ganga lengra en það, að láta þessa athugun fara fram, og hefur hann leyft að hafa það eftir sér (þ. e. þm. Barð.), að hann hefði ekki, að þessum upplýsingum fengnum, neitt á móti því, að málið yrði flutt í þessari mynd. Það er ætlunin, þegar þessi skip eru komin, að þá verði hægt að taka upp skipulagsbundnara kerfi en verið hefur á strandferðum, þannig að farþegaskipin gengju frá Reykjavík á 10 daga fresti kringum landið hvort á móti öðru og flyttu aðallega farþega og póst, þó þannig, að vörur væru einnig fluttar til þeirra staða, þar sem afgreiðsluskilyrði eru bezt og skipin geta lagzt að bryggju. Aftur á móti eru smærri bátunum ætlaðar ferðir með vörur fyrst og fremst til þeirra hafna, þar sem stærri skipin geta ekki lagzt við bryggju, og einnig er í þeim nokkurt farþegapláss fyrir farþega til þeirra staða. Nú liggur málið þannig fyrir, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að erlendar skipasmíðastöðvar hafa mjög annríkt, og þess vegna hafa þær ekki viljað binda sig við að standa við tilboðin nema um stuttan tíma. Ein af skipasmíðastöðvunum setti það skilyrði fyrst, að sitt tilboð yrði annaðhvort samþ. eða því hafnað fyrir 29. f. m. og vildi ekki skuldbinda sig til að standa við það lengur. Nú hefur þessi tímafrestur fengizt framlengdur til 15. þ. m., og þess vegna er nauðsynlegt, ef að þessu ráði verður horfið, sem mér sýnist mörg rök hníga að og þingvilji virðist vera fyrir eftir undirtektum hv. Nd., að málinu verði hraðað sem mest, ef skipasmíðastöðvarnar eiga að standa við tilboð sín. Ég leyfi mér þess vegna að fara fram á það við hæstv. forseta þessarar d., að málinu verði hraðað eins og hann sér sér fært og því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og það fái afgreiðslu á næsta þingfundi, ef mögulegt er, þannig að samgmn. gæti athugað málið milli umr. án þess að því væri beinlínis formlega vísað til hennar. En ef sú n. telur það réttari málsmeðferð, þá hef ég ekki á móti því, ef unnt verður að tryggja það, að hægt verði að afgr. málið á næsta fundi d., væntanlega á morgun.