15.11.1945
Efri deild: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

44. mál, sláturfélag Skagfirðinga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta mál kemur frá hv. Nd., og ég hygg, að það hafi verið samþ. þar ágreiningslaust. Það er, eins og menn sjá, flutt af hv. þm. Skagf. og fer fram á heimild fyrir Sláturfélag Skagfirðinga til að innkalla stofnbréf sín. Og eftir því, sem hv. flm. segja, þá er ástæðan til þess, að þetta frv. er fram borið, einkum sú, að reynslan hefur sýnt, að allmikil brögð eru að því, að bréf þau, sem gefin eru út fyrir eign manna í stofnsjóði félagsins, glatist. Til þess að eigendur slíkra bréfa missi ekki stofnfjáreign sína, verður að ógilda þau með dómi, og eins og allir vita, er það töluvert kostnaðarsamt og vafningar við það. — Sýnist ástæðulaust annað en heimila stjórn Sláturfélagsins að innkalla bréfin á þann hátt, sem lagt er til í frv., því að fyrirkomulagsreglur um stofnsjóðseignir manna, sem þá verða, ef frv. verður að l., eru nákvæmlega þær sömu og yfirleitt viðgangast í samvinnufélögum. Það er því till. allshn. þessarar hv. d., að frv. verði samþ. óbreytt. Þó er þess að geta, að tveir hv. nm. voru fjarstaddir, þegar n. tók ákvörðun um þetta mál, og get ég að sjálfsögðu ekkert sagt um þeirra afstöðu til málsins.