15.11.1945
Efri deild: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

44. mál, sláturfélag Skagfirðinga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég vil benda hv. þm. Barð. á 3. gr. frv., þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Að innköllunarfresti liðnum skal sláturfélagið færa inn í viðskiptabækurnar stofnfjáreign félagsmanna án tillits til þess, hvort bréfin hafa verið afhent eða eigi, enda fellur niður skylda félagsins til að innleysa bréfin, þótt þau komi síðar fram.“ — Mér skilst, að þetta geti ekki farið á milli mála. Hver maður á sína stofnsjóðseign í félaginu, og komi bréf ekki fram að þeim auglýsta fresti liðnum, þá eru bréfin að vísu ógild, þannig að handhafi, sem kynni að hafa náð bréfi með einhverjum hætti, getur ekki gert kröfu til þeirrar innstæðu, sem bréfið hljóðar upp á, en sá skráði eigandi bréfsins á að sjálfsögðu stofnsjóðsinnstæðuna.