06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

10. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef aldrei dregið í efa, að sá spaki maður, hv. þm. Dal., kynni að sjá við refjum þeirra, sem vilja vinna fyrir annan málstað en hann sjálfur. En ég hygg, að í þessu tilfelli sé sú varfærni, sem fram kom í ræðu hans nú, óþörf. Ég fæ ekki séð, að þessi brtt, geti spillt fyrir málinu, hvort sem hún er samþ. eða felld. En það er sjálfsagt allur varinn góður og sjálfsagt fyrir hv. þm. Dal. að skyggnast nokkuð um, til þess að sjá við brellum framsóknarmanna. En ég get ekki neitað því, að mér finnst heldur kuldalega launuð liðveizlan, sem hv. þm. Dal. fær nú hjá hv. 1. þm. N.-M., því að fram hjá því verður ekki komizt, að það er fullkomin liðveizla, sem e. t. v. nægir til þess, að loksins endi nú þessi píslarganga með 17. gr. jarðræktarl. (ÞÞ: En hverjir hafa verið kvalararnir?). Ég hef eftir megni reynt að kvelja hv. þm. Dal. í þessu efni, og fyrir hönd hv. þm. Dal. er mér ánægja að sjá, að hv. 1. þm. N.-M. hefur flutt sig yfir á hinn bakkann, til hans.

Ég álít rétt að samþ. þessa brtt. hv. 1. þm. N.-M., ef frv. á annað borð gengur í gegn. Og það þarf ekki athugunar við, hvar ákvæði brtt. á að koma í jarðræktarl., því að þetta ákvæði gildir aðeins um það eina skipti þegar ákveðið er, hvað verði um fylgifé jarðanna, sem safnazt hefur. Ég kann ákaflega vel við það líka, að þetta sé beinlínis fram tekið, og ég vil undirstrika það, að það sé alveg tvímælalaust, hvaða mönnum þessar gjafir eru gefnar, sem hér er um að ræða. Þá liggur það skýrt fyrir, þegar borið er saman við fasteignabækur síðustu ára, og þá er fenginn glöggur listi yfir þá, sem hv. þm. Dal. (ÞÞ) gengst fyrir, að gefnar séu gjafir. Hv. 1., þm. N.-M. (PHerm) minnist þess, að fyrir meira en áratug kom fram till. um að gefa bændum upp skuldir langt umfram það, sem kreppulögin gerðu ráð fyrir. Ég ætla, að við höfum verið saman á fundi, þegar þessi mál voru rædd. Þegar búið væri að gefa bændum upp skuldir, átti að stofna fjársterkan banka, sem átti að veita lán að nýju. Mér finnst, að hv. 1. þm. N.-M., sem ekki virtist sérstaklega hrifinn af þeim till., sé nú farinn að taka upp svipaðar till.

Ég las í Tímanum ágæta grein um nýjar framkvæmdir til stuðnings við landbúnaðinn. Það á að halda áfram að veita styrki til jarðræktar og nýbýla og auka fé til stofnana, sem lána fé til landbúnaðarins, allt að 3/4 hlutum af byggingarkostnaði, en vextir og afborganir eiga að vera samanlagt 3½ af hundraði. Og svo á að gefa eftir allt, sem búið er að leggja fram til bygginga og jarðræktar á undanförnum árum, eða í fám orðum sagt: Það á enga styrki að skerða, sem veittir eru, heldur á að veita styrki til viðbótar. Þegar þær till., sem ég ræddi um áðan, voru uppi, þá var öðruvísi ástatt í landbúnaðarmálunum en nú. Þá var basl og kreppa, jarðir og fasteignir lítils virði og erfitt um afkomu bænda. Ég hygg, að þessu sé ekki til að dreifa nú og að þetta muni bændur mjög litlu, en söm er gerðin, — ekki Er því að neita.

Það er þýðingarlaust að halda uppi löngum umr. um þetta mál, en ég vildi aðeins benda á fáein atriði í sambandi við það og með því reyna, að sá óþokki og kuldi mætti eyðast, sem mér finnst hafa gætt svo mjög í ræðum hv. flm., og að samkomulag mætti verða betra að lokum.

Ég vildi mælast til, að hæstv. forseti viðhefði nafnakall um brtt. og frv., þegar þar að kemur.