06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

10. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég held, að ekki sé ástæða til þess að koma af stað löngum umr. um mál, sem svo mikið hefur verið rætt. Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu. Þetta mál hefur verið hér til umr. í þessari hv. d., eins og ég minntist á áðan, og ég hef lýst því yfir, að þegar samkomulag lægi fyrir um það frá búnaðarþingi að afnema ákvæði þessarar lagagreinar, þá mundi ég greiða atkv. með því hér á Alþingi. Það er langt síðan ég lýsti þessu yfir og það var að sjálfsögðu að yfirveguðu ráði, bæði með tilliti til vilja bænda í þessu máli og með tilliti til þess, hvernig þessi lagagrein hefur reynzt í framkvæmd. Það þýðir ekki að neita því, að þetta lagaákvæði hefur ekki beinlínis náð tilgangi sínum. Það hefur ekki haft þau áhrif á verðlag jarða, sem gert var rá$ fyrir og nauðsyn bar til. Reynslan liggur fyrir, ekki sízt nú eftir þessa verðhækkunaröldu, sem orðið hefur. Það er staðreynd, sem talar sínu máli, þrátt fyrir ákvæði greinarinnar. Þessa lagagrein er því eðlilegt að afnema, enda hafa þessi ákvæði og þær umr., sem um hana hafa farið fram, unnið sitt gagn, og að því leyti hefur þessi grein náð tilgangi sínum óbeinlínis. Ég efast um, að það hefði verið flutt frv. á Alþ. á þeim tíma, sem þessi lagagr. var samþ., af þeim mönnum, sem nú flytja frv. um að selja þjóðjarðir eingöngu með þeim skilyrðum, að ekki megi selja þær með hagnaði. Og það liggur skýrt fyrir frá þeim mönnum, sem andmæltu tilgangi þessarar gr., að halda jarðaverðinu niðri. Nú liggur jafnframt fyrir yfirlýsing þeirra um, að rétt sé að afnema gr., og þeir telja þess fulla þörf að setja lagaákvæði til að ná þeim tilgangi, sem gr. átti að ná. Að því leyti hefur þessi lagagrein náð tilgangi sínum óbeinlínis betur en nokkur lagaákvæði, sem sett hafa verið. Þá vil ég, að lagagreinin, sem ekki náði tilgangi sínum beinlínis, sé afnumin, og vil ég svo reyna að hafa samstarf við þá menn, sérstaklega bændur landsins, sem nú hafa almennt vaknað til skilnings, ekki sízt vegna umr. um þessa gr., um að koma á lagaákvæði, sem nær þeim tilgangi, sem lagagreinin átti að ná. Ég mun þess vegna greiða atkv. með afnámi þessa lagaákvæðis og að sjálfsögðu með brtt. hv. þm. N.-M., því að ég verð að segja það, að það væri mikil skyssa að afnema þessa lagagrein, en láta leifar hennar standa eftir óraskaðar, þar sem gert er ráð fyrir að setja lagaákvæði til að ná tilgangi hennar, því að ég hef skilið það svo, að þótt lagaákvæði sé afmumið, þá standi þær verkanir, sem gr. hefur haft, í gildi, sé ekki annað tekið fram. Held ég, að það geti ekki orkað tvímælis.

Mér þykir ákaflega leitt, að hv. þm. Dal., sem mikinn áhuga hefur fyrir þessum málum, skuli hafa viljað til svo alvarleg skyssa í þessu máli. En sem betur fer, verður það leiðrétt, ef hv. d. greiðir brtt, hv. 1. þm. N.-M. atkvæði.

Ég skal svo að tilefnislausu ekki segja fleira um þetta mál. Ég gerði aðeins grein fyrir afstöðu minni til málsins.