06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

10. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að halda neina líkræðu yfir hinum framgengnu hér. Ég vil aðeins segja örfá orð út af ræðum tveggja hv. þm., hv. þm. Str. og hv. 3. landsk. Hv. þm. Str. hélt því fram, að ef þessi brtt., sem hér er á ferðinni, — innan gæsalappa sagt: ef hún hefði ekki komið fram, — þá hefði allt verið í ólagi með l. eftir afnám 17. gr. En ég vil spyrja hann: Hvernig var það þá? Leit hann ekki eftir því, að hv. þm. Mýr. (BÁ) hafði þessa brtt. hjá sér, þegar hann flutti sams konar frv. í Nd. ? Það hafði hann vitanlega ekki gert, og honum hefði ekki dottið í hug að gera það fyrr en ég hafði lýst yfir afstöðu minni í málinu í þessari hv, d. Þá minntist hann fyrst á það, að þetta gæti orkað tvímælis, og taldi rétt að ganga eftir upplýsingum frá n. um það, hvernig skilja beri l., ef niðurfelling 17. gr. 1. nær fram að ganga. Að síðustu vil ég geta þess, að ég hef borið þetta undir lögfróða menn, og þeir álitu, að það sé ekki neitt nauðsynlegt að ákveða þetta, og eru þeir menn þó miklu meiri lagamenn en hv. þm. Str., að honum ólöstuðum, enda hefur hann verið dómsmrh. og margt fleira, en hann getur ekki gert kröfu til að vera mestur að lagaviti á landi hér. (HermJ: Hvaða lögfræðingar sögðu þetta?) Það get ég sagt honum að umr. lokinni, og þá getur hann boðið þeim út í lagaglímu; ef hann óskar.

Hv. 3. landsk. (HG) talaði um, að hér væri verið að gefa gjafir. Hver er að gefa gjafir? Eftir því, sem þeirra sjónarmið eru, sem hafa verið í andstöðu við okkur um 17. gr., þá hafa þeir sagt, að ekki ætti ríkið þetta. En með þessu kemur það skýrt fram, ef ákveðið væri að gefa þetta eftir, að þá sé það ríkið, sem það gerði, að því er mér skilst. En um hv. 3. landsk. er það að segja, að hann kom fram, að því er hann segir sjálfur, eins og sá maður, sem eyðir kulda og elskar friðinn og vill draga úr deilum og leiða til sátta. En ég vil segja það, að ef verið er að gefa bændum gjafir með afnámi þessarar gr., þá er það ekki einstakt fyrirbrigði, að slíkar gjafir séu gefnar og það ekki síður kaupstaðabúum en sveitabændum. Um þetta atriði þarf í sjálfu sér ekki að tala, því að það er vitað, að ef maður er svo heppinn að eiga blett í Sogamýri, Fossvogi eða hér úti á Nesi, í nágrenni kaupstaðarins eða í öðrum kaupstöðum, þá kemst hann undan því, að nokkur kvöð sé lögð á hans ræktaða blett. Og ég vil segja, að útgerðarmenn hafa fengið bæði lán og styrki til bátakaupa. Og það er ekki svo lítið, sem lagt hefur verið fram í styrkjum til bygginga handa verkamönnum. Þetta má allt telja og sjálfsagt margt fleira, en ég tel ekki rétt að fara í neinn meting um þetta. Ég mótmæli, að þarna sé á nokkurn hátt farið betur með bændur en aðra, þótt þeir fái styrki úr ríkissj. til jarðræktarframkvæmda kvaðalaust eins og aðrir. Ég hef sagt það áður, að jafnframt því, sem þetta eru útgjöld fyrir ríkið, er þetta þó að vissu leyti tekjugrein fyrir ríkissjóð, þar sem hann fær meiri fasteignaskatt og fleira, ef þessar framkvæmdir eru sæmilega gerðar.

Ég þarf ekki að svara fleiru og mun ekki taka aftur til máls, nema sérstakt tilefni gefist til.