06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

10. mál, jarðræktarlög

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi taka undir áskorun hv. 2. þm. Árn. um það, að umr. yrði frestað og að n. tæki þetta mál til endurnýjaðrar athugunar. Mér skilst það vera ákaflega klaufalegt, hvernig verður frá frv. gengið, ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. verður samþ. Nú skilst mér að vísu, að hún sé óþörf vegna þess, að þegar 17. gr. er felld niður, þá falla niður þessi ákvæði, sem um er að ræða. En úr því að hún er komin fram, er ástæðulaust að greiða atkv. á móti henni, og tel ég sennilegt, að hún verði samþ., en eins og formið er, er það illmögulegt, og vil ég taka undir það, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að umr. verði frestað og n. reyni að setja þetta í skaplegt horf.