28.11.1945
Efri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Eins og sjá má á grg. frv., þá hefur fjhn. þessarar d. flutt þetta frv. að tilhlutan og ósk hæstv. viðskmrh. En eins og einnig má sjá þar, hafa nefndarmenn óbundnar hendur um málið, og stafar það af því, að n. vannst ekki tími til að athuga málið efnislega, heldur tók hún málið til flutnings aðeins til þess að greiða fyrir því inn í þingið. En eins og hv. þdm. er kunnugt, liggur þessu máli mikið á, því að löggjöf um þetta efni eða einhvers konar ákvæði verða að vera komin um mánaðamót næstu. Við þann tíma er nú gildandi löggjöf miðuð. — Ég get þó sagt það fyrir mitt leyti, að það hefur verið af sumum nm. gerð athugun á þessu máli, og ég og sjálfsagt einhverjir fleiri í n. erum því fylgjandi eins og það er, enda þótt verið gæti, að einhverjar breyt. mætti e. t. v. gera á því.

Að vísu veit ég, að hæstv. viðskmrh. mun að sjálfsögðu gera grein fyrir þessu máli. En ég vona, að ég valdi þó ekki allt of miklum endurtekningum, þótt ég skýri frá því, hverjar eru helztu breyt., sem þetta frv. gerir á núgildandi l. um þetta efni. Það er í fyrsta lagi það, að rýmkað er um verzlunarviðskiptin við útlönd að því leyti, að áður voru allar vörur háðar innflutningsleyfum, og ef einhverjar vörur áttu að vera frjálsar, varð að taka það fram með sérstökum ákvæðum, að vörurnar skyldu vera frjálsar. Þannig er í 1. lið 2. gr. frv. tekið fram, að viðskiptaráð skuli gera till. til ráðh. um það, á hvaða vörutegundum innflutningur skuli vera háður leyfisveitingum og frá hvaða löndum. En nú er svo ákveðið, að viðskiptaráð á að gera till. um það, á hvaða vörum innflutningur skuli ekki vera háður leyfisveitingum. Nú eru eftir þessu frv. allar vörur frjálsar um innflutning, nema það sé sérstaklega fram tekið af viðkomandi stjórnarvöldum. Það má segja, að á þessu sé nú ekki meiri munur en þegar sagt er annars vegar, að hús sé hálftómt, og hins vegar að það sé hálffullt. En þó er á þessu mikill prinsipmunur. Og mér finnst sjálfsagt, að þegar stríðsástandinu lýkur, verði einnig við það miðað, að viðskiptin séu frjáls, þó að ýmislegt valdi því, að hömlur þurfa að vera á viðskiptunum.

Þá er það annað í þessu frv., að nokkur hluti erlenda gjaldeyrisins verður óháður ákvörðunum viðskiptaráðs, þ. e. a. s. sá gjaldeyrir, sem ekki fer fyrir greiðslur á vörum, sem viðskiptaráð ákveður um, og verður þá sá gjaldeyrir aðeins háður þeim reglum, sem bankarnir, sem gjaldeyrinn eiga, setja. Það verður annað eftirlit með honum en það eðlilega eftirlit, sem bankarnir hljóta að hafa. En enginn má selja erlendan gjaldeyri, nema Landsbankinn og Útvegsbankinn, og svo póststjórnin innan þröngra takmarka. Mér virðist þetta sú eðlilega breyt., og það eðlilega eftirlit með erlendum gjaldeyri er það eftirlit, sem bankarnir framkvæma.

Þá er það enn breyt., að nú er ekkert ákvæði um það, að viðskiptaráð annist sjálft innkaup, enda mun því hætt í raun og veru, og því ekki ástæða til þess að hafa það í l. lengur.

Fjórða atriði frv. er, að rýmkað er um ákvarðanir um skiprúm. Áður voru ákvæði um, að viðskiptaráð skyldi ráðstafa farmrými á skipum. Og um tíma var skortur á farmrými á skipum aðalerfiðleikinn í sambandi við innflutning til landsins. En í staðinn fyrir þetta er nú í þessu frv. ákveðið, að viðskiptaráð skuli ráðstafa, ef því þykir nauðsyn bera til, farmrými á skipum, er annast eiga vöruflutninga til landsins og eru eign íslenzkra aðila eða á vegum þeirra.

Fimmta breyt. leiðir af l. um nýbyggingarráð. Það er tekið tillit til þess í frv., sem kemur m. a. fram í 3. gr. þess, og svo nokkrum innskotum í öðrum gr. frv., og er mjög eðlilegt, því að nýbyggingarráð er orðin svo fyrirferðarmikil stofnun í þessu efni.

Þá sýnist mér, að ekki muni vera nema nokkuð smávægilegt eftir að telja, t. d., að það stendur á einstaka stað ráðherra í staðinn fyrir ríkisstjórn. Þó að það að vísu komi til kasta viðskmrh. að eðlilegum hætti, þá þótti samt skýrara, að það væri beinlínis fram tekið í l., að það heyrði undir hann, og gæti raunar í einstaka tilfellum haft þýðingu.

Loks er svo breyt. á skipun viðskiptaráðs og varamanna. Breyt. um varamenn er sú, að áður var ákveðin tala varamanna, og hefði þá komið fyrst inn 1. varamaður, svo 2. o. s. frv., en nú, eftir frv., skal beinlínis ákveða, hvaða varamaður skuli koma fyrir hvern aðalmann í ráðinu, að mér skilst, og er í raun og veru alveg sjálfsagt, að svo sé um hnútana búið, þó að viðskiptaráð sé skipað eins frjálst og nú er. Og enn þá sjálfsagðara hefði þetta verið, ef farið hefði verið að till. formanns viðskiptaráðs um að skipa fjóra menn í það að tilnefningu stjórnmálaflokkanna. Þá hefði það verið alveg sjálfsagt, að hver aðalmaður hefði sinn varamann. En þó að viðskiptaráð sé svona skipað eins og það er, álít ég þetta sjálfsagða tilhögun.

Það er prentvilla í 1. gr. frv., þar sem stendur: „við skiptingu varamanna“. Þarna á vitanlega að vera: við skipun varamanna. Vil ég biðja hæstv. forseta að leiðrétta þetta.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. Og þó að n. hafi ekki haft málið til meðferðar, þá vil ég, — ekki fyrir hönd n., heldur persónulega — mæla með því, að frv. fái sem greiðastan gang í gegnum hv. þd., því að l. um þetta efni þurfa að verða samþ. fyrir mánaðamótin næstu.