29.11.1945
Efri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Fjhn. hélt fund um þetta mál þegar í stað að afloknum fundi hér í hv. d. í gær. Var málið rætt allýtarlega, og varð ekki fullt samkomulag um það í n. Meiri hl. fjhn., fjórir nm., sem undirskrifa þetta nál., gera það án fyrirvara og mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, enda þótt mönnum hefði eins og gengur getað dottið í hug að hafa einhver ákvæði þess öðruvísi en þau eru, ef menn hefðu átt að semja það sjálfir. Tveir nm. í meiri hl. hafa hins vegar látið í ljós, að þeir áskilji sér rétt til að vera með brtt., sem fram kynnu að koma við frv. og rætt var um í n., en hvorugur hefur gert þetta að skilyrði fyrir samþykkt frv. og hafa þannig skrifað undir með meiri hl. n., sem mælir með samþykkt frv. Einn nm., hv. 3. landsk. (HG), vildi ekki vera með í afgreiðslu málsins og kvaðst mundu bera fram brtt., sem væru skilyrði þess, að hann gæti gefið frv. samþykki sitt. Ég sé nú, að hv. 3. landsk. er ekki staddur hér í hv. d., og hefði ég annars viljað bíða eftir, að hann mælti fyrir sínum brtt. En það er skemmst frá þeim að segja, að þær ganga allar út á það að gera frv. að engu. Þau atriði, sem aðallega horfa til batnaðar frá núgildandi l., — en eins og ég gat um í gær, eru breyt. frá núgildandi l. ekki stórvægilegar, — vill hv. 3. landsk. breyta í sömu átt og var. Hann vill, að aftur verði allar vörur bannaðar til landsins nema þær, sem viðskiptaráð ákveður, og að allur gjaldeyrir verði háður eftirliti viðskiptaráðs. Og ef vörur eru gefnar frjálsar, á að gefa viðskiptaráði skýrslu um innkaupin. Hann vill meira að segja breyta því, að þar sem í frv. stendur, að ráðh. setji viðskiptaráði starfsreglur, þá vill hann, að ríkisstj. geri þetta. Hann vill sem sagt í smáu og stóru færa þessi mál í sama horfið og áður var, og hefði hann eins getað lagt til, að frv. væri fellt. Þó er eitt atriði, sem hann tekur upp úr till. hv. þm. Vestm., á þá leið, að viðskiptaráð skuli skipað 4 mönnum, tilnefndum af þingflokkunum. Nú virðist það ekki heppilegt að hafa jafna tölu í ráðinu, en hins vegar býst ég við, að ríkisstj. muni skipa í ráðið með tilliti til þingflokkanna. — Ég vil svo mælast til, að þetta mál fái fljóta afgreiðslu.