29.11.1945
Efri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti í rauninni virðist mér, að lítill efniságreiningur sé um þetta frv., og er undrandi yfir, að hv. 3. landsk. skuli nota sína miklu mælskulist til að reyna að láta líta svo út. Hann telur heppilegra, að framkvæmd þessara laga heyrði undir ríkisstj., en ekki viðskmrh. Um þetta er, það að segja, að mér virðist þetta skipta litlu máli. Ríkisstj. skal skipa í ráðið, en vitanlega mundi framkvæmd þessara laga stöðugt falla undir verksvið viðskmrh., enda þótt svo væri orðað í frv., að ríkisstj. skuli hafa á hendi framkvæmd þeirra. Þess vegna tel ég, að þessi breyting skipti mjög litlu máli. — Þá finnst mér óviðkunnanlegt að láta atkv. eins nm. vera tvígilt eða að nm. séu fjórir.

Hv. 3. landsk. lét í ljós, að aðalágreiningurinn væri um 2. gr. frv., og er það e. t. v. rétt. Hann taldi, að það væri fremur sýnd veiði en gefin að gefa frjálsan innflutning nú, þar sem ríkjandi eru viðskiptaörðugleikar og vöruþurrð í flestum löndum álfunnar. Allt er þetta hárrétt. Í þessu tilliti er raunar alveg sama, hvaða aðferð er valin. Þetta ákvæði frv. hefur fyrst og fremst gildi sem viljayfirlýsing. Þetta frv. er í rauninni ekkert annað en staðfesting á ríkjandi ástandi. Á meðan ófriðurinn stóð, var leyfður frjáls innflutningur frá þeim löndum, sem greiðslu taka í pundum, nema á skranvarningi. Að vísu hefur þurft að fá leyfi hjá viðskiptaráði, en það hefur fengizt í flestum tilfellum, og þær vörur, sem bannaðar hafa verið, mundu verða það áfram eftir ákvæðum þessa frv. Hér er þess vegna ekki um mikla breytingu að ræða. Það er ekki ætlunin með þessu frv. að slaka neitt til á gjaldeyriseftirlitinu, heldur á það að verða öruggara og fullkomnara, það er fullkominn misskilningur, að frv. stefni í aðra átt. Og vitanlega kemur ekki til mála að leyfa frjálsan innflutning frá nokkru þeirra landa, sem krefjast greiðslu í dollurum. Aftur á móti gæti maður hugsað sér að leyfa frjálsan innflutning á ákveðnum vörutegundum frá vissum löndum.

Ef til vill stafar ágreiningur okkar hv. 3. landsk. einkum af því, að hann vill hafa hömlur á verzluninni, en ég vil hafa hana frjálsa. Reynslan hefur sýnt hjá öðrum þjóðum, að frjáls verzlun lækkar vöruverðið. Þegar innflytjandinn veit, að öll varan selst, þarf hann ekki að keppast við að hafa lágt vöruverð.

Um önnur atriði þessa máls sé ég ekki ástæðu til að ræða. — Orkað getur tvímælis, hvenær þessi lög skuli falla úr gildi. Ákvæðið um 1. des. 1946 á einungis að tryggja það, að lögin verði þá endurskoðuð. — Um atkvæðisrétt verðlagsstjóra ætla ég, að skipti ekki máli. Hann hefur aðstöðu til að koma fram skoðunum sínum, og um þetta hefur ekki orðið neinn ágreiningur, svo að ég viti. — Ég efast um, að nokkur af þessum brtt. sé til bóta, og vil mælast til, að frv. verði samþ. óbreytt. — Ég hef svo ekki meira um þetta að segja.