15.10.1945
Neðri deild: 8. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Með því frv., sem hér liggur fyrir, fylgir nokkur grg., og þarf ég þess vegna ekki að fara ýtarlega út í efni þess. Með frv. er lagt til, að hámark sýsluvegasjóðsgjalda, sem ríkissjóður leggur fé á móti, hækki úr 6 af þúsundi af landverði jarða samkv. fasteignamati í 10 af þúsundi og af húsum úr 3 af þúsundi í 6 af þúsundi.

Þessi l., sem hér um ræðir, eru raunar að mestu leyti frá 1923. Þau eru þess vegna meira en 20 ára gömul, og þetta hámark 6 af þúsundi hefur gilt allan þann tíma. Er óhætt að segja, að miðað við þær aðstæður, sem þá voru, var þetta ákvæði mjög ríflegt, enda var það svo, þar sem ég þekkti til, að vegum fleygði mjög ört áfram á þeim árum. En síðan l. þessi voru sett, hafa orðið stórfelldar breytingar. Í fyrsta lagi eru komin ný tæki til sögunnar, sem krefjast betri vega og sérstaklega miklu meira viðhalds á vegunum en áður var. Af breyttum búnaðarháttum hefur jafnframt leitt það, að fólkið krefst miklu meiri vegalagninga en áður. En það, sem mestu hefur skipt í þessu máli, er það, að kaupgjald í vegavinnu hefur í mörgum héruðum tífaldazt eða meira á þessu tímabili, og er því auðsætt, að sú upphæð, sem nægði fyrir 20 árum, hrekkur skammt eins og nú er komið.

Eins og getið er um í grg. fyrir frv., hefur af þessu leitt tvennt. Í fyrsta lagi það, að sú upphæð, sem sýslunefndirnar hafa heimild til að verja úr sýsluvegasjóði, hrekkur engan veginn fyrir þeim sýsluvegagjöldum eins og þau nú eru, og í öðru lagi hefur þetta leitt til vaxandi krafna almennings um, að fleiri og fleiri sýsluvegir verði teknir í tölu þjóðvega. Þetta þekkjum við þm. utan af landi mæta vel, og þessar kröfur verða háværari og háværari með hverju árinu, sem líður, ekki sízt þegar nú er svo komið, að árlega verða margir hreppar að leggja á sig mjög mikil gjöld aukreitis til þess að viðhalda sýsluvegunum, því að framlag sýsluvegasjóðanna hrekkur ekki á nokkurn hátt til þess. Þetta gildir sérstaklega í þeim héruðum, þar sem verður að halda uppi daglegum mjólkurflutningum og slit á vegunum verður þar af leiðandi miklu meira en ella. — Mér hefur verið sagt, að þegar ein sýslunefnd kom saman í vor í sýslu einni hér í nágrenninu, hafi hún ekki séð neina leið til þess að komast fram úr þessum vegagjöldum fyrir sýslunnar hönd með þeim ákvæðum, sem í gildi eru, og að hún hafi þess vegna sent nefnd manna með sýslumann í broddi fylkingar til þess að fá undanþágu frá l. og að það hafi tekizt, því að ríkisstj. hafi beygt sig fyrir þeirri óumflýjanlegu nauðsyn, sem þessir sendimenn gátu sýnt fram á, að væri hér til staðar. Þegar svo er komið, að sýslurnar sjá sér engin úrræði, þá verð ég að telja og býst við, að allir séu um það sammála, að eðlilegra sé að breyta 1. en að verða að senda slíkar sendin. til Reykjavíkur, með þeim kostnaði og þeirri tímatöf, sem því fylgir.

Með frv. er engan veginn vikið frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í þessum málum síðastliðin 20 ár. Þessi breyting er aðeins eðlileg afleiðing þess, að á þessu tímabili hafa komið til sögunnar flutningatæki, sem krefjast bættra vega og aukins viðhalds á þeim, og ekki hvað sízt hitt: breytt gildi peninga, sem gerir ókleift að komast af með sömu upphæð og gert var ráð fyrir, þegar þessi l. voru sett fyrir 20 árum. Það eina, sem hefur staðið í stað, er framlag ríkissjóðs á móti framlagi sýslnanna, enda þótt sýslurnar leggi fram margfalt meira fé en áður.

Vænti ég svo, að hæstv. Alþ. taki með velvilja á þessu máli, og legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgmn.