12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Jón Sigurðsson:

Ég leyfi mér að þakka hv. samgmn. fyrir undirtektir í þessu máli. Ég veit með vissu, að þessar undirtektir verða héruðum og héraðsstjórnum mjög kærkomnar.

Það er raunar rétt hjá hv. 2. þm. N.-M., að veita verður miklu meira fé til sýsluvega en gert hefur verið, enda er það ekki sæmilegt, hvernig búið hefur verið að sýsluvegunum, hve lítill styrkur til þeirra hefur verið veittur. En hitt er ekki rétt hjá hv. þm., að skort hafi fé, þar sem komnar eru á sýsluvegasamþykktir. Mitt kjördæmi hefur búið undir þessu skipulagi, og mér er ekki kunnugt um, að nokkru sinni hafi skort á, að ríkissjóður hafi greitt það fyllsta, sem honum bar að greiða á móti framboðnu fé úr sýsluvegasjóði. Ég hygg, að það liggi í þessu og þori að fullyrða, að við Skagfirðingar höfum alltaf fengið greitt móti þessum 6 af þúsundi, sem l. heimila, og að þar hafi aldrei staðið upp á ríkissjóð.