26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

N. hefur orðið sammála um að mæla með þessu frv. eins og það er komið frá hv. Nd. Það er óþarft að fara mörgum orðum um þetta. Það er kunnara en frá þurfa að segja, að eftir allar þær mörgu og margvíslegu breyt., sem átt hafa sér stað á þessum 20 árum síðan l. þessi voru sett, er hámark sýsluvegasjóðsgjalda, sem ríkissjóður leggur fé á móti, orðið svo allt of lítið, að til vandræða hefur horft og horfir enn, þegar um framlagsþörfina er að ræða. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, í því skyni að ráða bót á þessu, að hámark sýsluvegasjóðsgjalda, sem ríkissjóður leggur fé á móti, hækki úr 6 af þúsundi af landverði jarða samkv. fasteignamati í 10 af þúsundi og af húsum úr 3 af þúsundi í 5 af þúsundi. Raunar stendur hér í grg. fyrir frv., að lagt sé til að breyta hámarkinu í 10 af þúsundi af fasteignamati jarða og 6 af þúsundi af fasteignamati húseigna, en það lítur út fyrir, að prentvilla hafi slæðzt inn í grg. í ógáti, því að l. sjálf, nr. 102 1933, segja, að það skuli vera helmingi lægra hámark af húseignum en jarðeignum. Þessi skýring kemur fram af sjálfu sér á l., með þeirri breyt., sem hér kemur til greina, en stendur af ógáti í grg. Ég álít um þessa nauðsyn að öðru leyti, aðgerðir á sýsluvegum, að taka verði því með réttum skilningi, að afleiðingin af þessari breyt. á framlagi heiman úr héruðunum og svo framlagi ríkissjóðs á móti fullnægir engan veginn brýnustu viðhaldsþörf, hvað þá nýbyggingarþörf vega út um sýslufélögin, þó að ég geri ráð fyrir, að ef rýmkað verður til á þennan hátt, sem hér er farið fram á, þá geti það orðið til þess að koma nokkrum sýsluvegum á landinu í þjóðvegatölu og að tala sýsluvega mundi lækka vegna þessara aðgerða. Ég vil því fyrir hönd n. mælast til þess, að hv. d. sæi sér fært að samþ. frv. óbreytt eins og það liggur fyrir.