26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég get skilið rökin fyrir því, sem hv. þm. Barð. hafði orð á. Það má vel vera, að það gæti farið vel á því, að þetta væri haft eins og hv. þm. benti á. En á hitt er að líta, að þó að fest yrði þessi lágmarkstala með frv., að færa hámarkið úr 6 af þúsundi í 10 af þúsundi, þá held ég, að það verði aldrei notað nema á sanngjarnan hátt og eftir því, sem ýtrasta nauðsyn krefur, því að enginn sýslusjóður er fús til þess að nota hvert sinn hærri upphæð úr sínum sjóði en hann þarf, þó að framlag komi frá ríkissjóði á móti. Þetta er náttúrlega dálítið rýmra en verið hefur, en eins og ég hef sagt, verður það ekki notað nema eftir frekustu nauðsyn, og sú nauðsyn skapast frá ári til árs eftir verðlagi að nokkru leyti, þar sem það fer eftir verðlaginu, hvað mikið fæst unnið fyrir þá upphæð, sem kemur til greina. Annars get ég fallizt á, að till. hv. þm. Barð, verði athuguð milli 2. og 3. umr.