29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Eins og ég hef tekið fram, gat ég ekki verið viðstaddur 2. umr. þessa frv., og vegna þess hef ég ekki heyrt fyrr en núna þessa till. hv. þm. Barð. um það að taka framlagið með vísitöluálagningu, sem mér finnst vel þess verð að taka til athugunar.

Mér virðist, að aðalútgjaldaliðirnir við vegina séu kaupgjald og svipaðir liðir, og hefur hækkun á þeim liðum orðið í samræmi við vísitöluna. Virðist mér því nokkuð unnið við það, ef samgmn. vildi ganga inn á till. hv. þm. Barð., og skyldi ég fúslega koma til viðræðna við n. um þetta mál. Mætti þá einnig ræða um þjóðvegi.

Ég vil geta þess, að eins og l. eru núna og ef heimildin, sem í l. felst, er notuð að fullu, verður framlag ríkissjóðs og héraðs jafnt. En ef frv. þetta verður samþ., leggur sýslusjóður 5 kr, á móti hverjum 7, sem ríkissjóður leggur. Mér virðist þetta svo við lauslega athugun nú á þessari stundu. Ég leyfi mér því að taka undir till. hv. þm. Barð. og þetta verði athugað, áður en málið verður afgr., og vildi ég gjarnan ræða við samgmn. áður.

Þá vil ég minnast á línuritið um vegi landsins, sem hv. þm. Barð. spurði mig um. Þetta er í fyrsta skiptið, sem ég heyri um þetta, en þó man ég óljóst eftir því, er till. þessi var samþ. hér á þingi. Ég mun ekki geta látið í té neinar upplýsingar nú um línuritið, en mun gera það seinna, er ég hef fengið að vita, hvað þessu máli líður.