04.12.1945
Efri deild: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Þegar síðast var horfið frá þessu máli í þessari hv. d., er því var vísað til 3. umr., var svo ráð fyrir gert, að samgmn. skyldi taka frv. til athugunar á milli umræðna. Þetta hefur nú verið gert, og er hv. dm. ljóst, hvað kom þar til greina. Var því m. a. hreyft af hæstv. samgmrh. við 2. umr., að þar sem hér væri um breytingu að ræða úr 6 af þús. og upp í 10 af þús. og tilsvarandi helmingi minna af húsamati, þá væri í nokkuð mikið ráðizt með þessum kvöðum á ríkissjóð og hér væru lagðar tvöfaldar gjaldskyldur á ríkissjóð. Þetta er auðvitað alveg rétt. En þar sem hér er um knýjandi nauðsyn að ræða fyrir byggðir landsins og sýslunefndir, sem eiga að miðla fé til sýsluvega, koma venjulegast að tómum hirzlunum, þá er það ljóst, að hér er um mikla nauðsýn að ræða. Vegna þessa vænti ég þess, að hæstv. ráðh. taki þessu með skilningi og góðvild og setji sig ekki á móti því, að frv. nái fram að ganga.

En hitt er kunnugt, að fyrir Alþ. liggja brtt. á vegalögunum um það að bæta nýjum vegum í þjóðvegatölu. Ég vil nú ekki eyða mörgum orðum um þetta efni, en vil þó segja það og hygg, að ég mæli þar fyrir munn meðnm. minna í meginatriðum, að ef frv. þetta og sú réttarbót, sem í því felst, nær fram að ganga, munum við beita áhrifum okkar þannig, að ekki verði bætt nýjum vegum í þjóðvegatölu nema mikil nauðsyn krefjist þess. En þetta frv. er svo mikilvægt, að ég tel, að það eigi að ganga fyrir öðrum um slík efni. Ég hygg líka, að ef þetta frv. nær fram að ganga, muni það sporna yfirleitt við því, að bætt verði nýjum vegum í þjóðvegatölu.

Þá tók n. einnig til athugunar þá uppástungu hv. þm. Barð. að haga þessari rýmkun þannig, að ekki komi ákveðin hækkun á þúsundhluta, heldur verði farið eftir vísitölu. Eftir að hafa athugað þetta, þótti ekki vert að breyta þessu í frv., því að n. fannst sú aðferð, sem nú er höfð í frv., eins og áður hefur verið bent á, hreinni og skiljanlegri. Því mæli ég með því, að frv. þetta á þskj. 22 verði samþ. óbreytt.