12.11.1945
Efri deild: 28. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

85. mál, happdrætti

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur flutt þetta frv. fyrir tilmæli hæstv. fjmrh., sem aftur af sinni hálfu hefur komið því á framfæri eftir ósk háskólaráðs, og fylgir hér með sem fskj. bréf frá rektor háskólans um það.

Efni frv. er ákaflega einfalt. Það er, um það eitt, að í stað þess, að nú fer dráttur fram í happdrætti háskólans 10 sinnum á ári — þ. e. a. s. happdrættið fer fram í 10 flokkum — þá er nú farið fram á í þessu frv., að dráttur fari fram í 12 flokkum og verði því dráttur í hverjum mánuði ársins. Þegar upphaflega var ákveðið að hafa aðeins 10 drætti á ári, þá var það meðfram vegna þess, að reynslu vantaði alveg um rekstur slíks fyrirtækis, og var þá litið svo á, að ekki mundi veita af að hafa um það bil 2 mánuði til þess að gera happdrættið alveg upp og búa undir næsta ár. Og þetta fyrirkomulag kom sér vel til að byrja með, meðan alla reynslu vantaði, t. d. til að koma sér fyrir með prentun á hlutarmiðum og koma þeim út á land. En það kom fljótt í ljós, að þetta fyrirkomulag var ekki alls kostar hentugt. Og ein meginhætta fyrir happdrættið var einmitt þetta hlé, sem var á milli drátta. Það var að vísu svo ákveðið, að þeir, sem ynnu í happdrættinu í síðasta, þ. e. 10. drætti, væru skyldir til þess að endurnýja viðskipti sín við happdrættið næsta ár. En vinningar eru nú ekki nema 1/5 dráttanna og ekki svo margir í 10. flokki, og það var alls ekki hægt að framfylgja þessu ákvæði í raun og veru, að skylda menn á þennan hátt til þess að endurnýja viðskiptin við happdrættið, því að ekki var hægt að lögsækja menn til þess að þeir gerðu það, og þar að auki voru vinnendur í happdrættinu náttúrlega ekki nema nokkrir af viðskiptamönnum happdrættisins.

Það hefur verið skoðun þeirra, sem mest hafa unnið við happdrættið, að bezt væri, að happdrætti háskólans hefði rekstur sinn þannig, — eins og öll happdrætti önnur, sem við þekkjum til, — að viðskiptin við það væru allt árið, og á því eru engir tæknilegir örðugleikar, eins og nú er komið. Og sérstaklega er dálítið freistandi að gera þetta vegna þess, að það er hægt að framkvæma þetta, að því er virðist, án þess að auka, starfslið happdrættisins nokkuð. Eins og nú er, kemur aðeins þarna fram óþarft hlé, þegar litið er að gera, en er samt ekki hægt að fækka starfsfólki fyrir það, því að allir hinir mánuðir ársins taka upp þeirra starfskrafta, sem hjá happdrættinu vinna. Það er beinlínis heppilegra fyrir happdrættið að starfa svona, eins og gert er ráð fyrir í frv. En sú þörf og aðalástæðan fyrir till. um þessa breyt. er, að méð þessari breyt. er hægt að hækka verulega tekjur happdrættisins. Að vísu hefur verð happdrættismiðanna hækkað um helming, en það er alkunnugt, að það er langt frá því, að sú hækkun hafi bætt upp þá stórkostlegu hækkun, sem orðin er á öllum kostnaði við þær framkvæmdir, sem tekjur happdrættisins eiga að standa undir. Og hve væg sú hækkun var, kom skýrast í ljós í því, að það hafði engin áhrif á viðskipti happdrættisins, því að náttúrlega sköðuðust viðskiptamenn happdrættisins á engan hátt við þetta, því að hækkun vinninganna hélzt í 70% af gjaldi fyrir selda miða, eins og var frá upphafi. En þessi aukning á greiðslum fyrir happdrættismiða, sem mundi leiða af breyt. á l., sem hér er frv. um, er með nokkuð öðrum hætti, þannig að þær einstöku mánaðarframlengingar haldast nú jafnháar, en það eru heildarviðskiptin á árinu, sem hækka um 20%, þannig að mánaðargjaldið fyrir fjórðungsmiða, sem oftast er miðað við, er 3 kr., eins og áður, en verður, ef þessi lagabreyt. er samþ., tólf sinnum á ári, sem eru 36 kr. alls, en var áður greitt tíu sinnum á ári, með 30 kr. alls. Og að sjálfsögðu verður vinningum fjölgað alveg í hlutfalli við þessa greiðsluhækkun og samin þá ný vinningaskrá með tilliti til þess.

Ég held, að ég þurfi ekki að bæta miklu við það, sem stendur í bréfi rektors um það, hvernig fjárhagurinn stendur í þessu sambandi. Tekjur af happdrættinu hafa á árabilinu frá 1934 og þangað til í árslok 1944 numið hér um bil 2 millj. og 670 þús. kr., og hefur það skipzt milli háskólans og ríkissjóðs þannig, að ríkissjóður hefur haft 20% af tekjunum. Fyrir ríkissjóðs hluta af þeim, hefur verið reist Atvinnudeild háskólans og síðan hafa runnið jafnan 20% af tekjum happdrættisins í ríkissjóð. Reikningar háskólans standa þannig, að í árslok 1944 var byggingarkostnaður háskólans nálega greiddur upp. En við það er það að athuga, að það er ákaflega kostnaðarsamt verk enn þá eftir við háskólann, vegna þess að það er eftir að gera við lóðina það, sem er ákaflega kostnaðarsamt. Það var fyrst lögð áherzla á það að greiða áfallnar skuldir vegna byggingar háskólans og vegna atvinnudeildarinnar. Og vegna þess, hvernig kapphlaupið hefur verið um vinnuaflið, þótti ekki rétt að koma inn sem einn keppinauturinn um vinnuaflið, og vegna þess hefur þetta dregizt. En það er til óhagræðis og jafnvel vanvirðu fyrir háskólann að láta lóðina standa eins og hún er nú. Er nauðsynlegt a. m. k. að laga lóðina fyrir framan háskólann, þar, sem ekki er ætlazt til, að neitt verði byggt. Það er sök sér með lóðina til hliðar og bak við háskólann, vegna þess að þar eru í framkvæmd tvær nýjar byggingar, og má búast við fleiri á næstu árum. En fyrir framan húsið er nauðsynlegt að lagfæra lóðina nú, sem mun kosta ákaflega mikla peninga. Sömuleiðis munu kosta mikið þaer girðingar, sem e. t. v. þætti nauðsynlegt að gera umhverfis þessa miklu lóð.

Það þarf ekki að taka fram, að tekjur ríkissjóðs af happdrættinu aukast að sama skapi og tekjur háskólans, ef þessi breyt. verður gerð að l. Og þar sem áreiðanlega eru fyrir hendi nóg þörf verkefni hjá ríkinu til þess að leysa með þessu fé og hægt er að afla þess með svo hentugum hætti, að nálega engu meira þarf að kosta til til þess að fá þessar auknu tekjur fyrir ríkissjóð en nú er gert við happdrættið, þá vonast ég til þess, að hv. þdm. finnist ekki ósanngjarnt að verða við þeirri ósk að samþ. þetta frv.

Um afgreiðslu málsins nú á þessu þ. vil ég segja það, að það er ekki enn til fulls rannsakað eða athugað, hvort möguleikar væru á því að láta þetta breytta fyrirkomulag, sem í frv. getur, koma til framkvæmda þegar á næsta ári. Ég býst varla við, að það gæti orðið. Á hitt er svo aftur að líta, að reynslan sýnir, að það gæti orðið eitthvað óvisst um þinghald í vetur, og það gæti orðið svo, að því þinghaldi yrði frestað éða flýtt eins og unnt væri. En það væri mjög hentugt fyrir framkvæmd þeirrar fyrirkomulagsbreyt., sem þetta frv. miðar að, að þessi breyt. á l. yrði afgreidd eins rúmum tíma fyrir fram og mögulegt væri vegna undirbúnings happdrættisins fyrir breyt. á fyrirkomulaginu. Ef slík breyt. sem þessi er afgreidd að haustinu og á að koma til framkvæmda strax um næstu áramót, þá þarf að koma allri prentun t. d., til þess að geta byrjað þetta, á þann tíma þegar mest er að gera í prentsmiðjunum. En prentun er gróflega mikill liður í kostnaði happdrættisins. Ef því þessi breyt. á að komast á, álít ég mjög hentugt, að hún verði afgreidd á þessu þingi.