03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

85. mál, happdrætti

Frsm. (Hallgrímur Benediktsson) :

Herra forseti. Máli því, sem hér er um að ræða, var vísað til fjhn., og n. leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ekki mun þurfa að gera nákvæma grein fyrir þeirri till., sem í frv. felst, sérstaklega þar sem hv. þm. hafa fyrir sér þann mjög svo góða rökstuðning rektors háskólans, Ólafs Lárussonar, fyrir téðri brtt.

Í upphafi var nokkur andstaða gegn peningahappdrætti, eins og kunnugt er. Þótti mönnum þá nokkur hætta á, að spilling yxi í skjóli slíks happdrættis, en reynslan sýndi, að svo hefur ekki farið. Hins vegar er það almenn skoðun, að háskólanum hefur farið stjórn happdrættisins hið bezta úr hendi.

Þær breyt., sem hér er farið fram á, raska á engan hátt þeim heilbrigða grundvelli, sem happdrættið hefur verið rekið á, heldur að í stað þess, að happdrættið hefur aðeins verið rekið 10 mánuði ársins, verði það rekið 12 mánuði ársins. Mun það eðlilega hafa í för með sér 20% hækkun á iðgjöldum fyrir þá, sem taka þátt í happdrættinu allan ársins hring, en samhliða því munu vinningarnir nú verða miðaðir við 70% af iðgjöldunum í öllum 12 flokkunum í stað þess, að áður var miðað við 10 flokka. Vinningarnir sjálfir verða ekki fleiri, enda var sú breyt. nýlega gerð á l., að vinningum var fjölgað úr 5 þús. í 6 þús. auk þess sem fjölgun vinninga er ekki svo mikilvæg, sé það ákveðið, hve mörgum % vinningarnir skuli nema af heildartekjum happdrættisins. Það sýnist þannig engin hætta vera fólgin í því að gera happdrættinu kleift að auka nokkuð tekjur sínar, þar sem þátttakendur í öllum flokkum fá endurgreitt 70% af framlögum sínum eftir sem áður. Og hér er auk þess um það að ræða að afla nauðsynlegri stofnun fjár til að halda uppi starfsemi sinni. Það blandast engum hugur um, að ríkinu ber skylda til að sjá svo um, að háskólinn hafi við slík skilyrði að búa, að hann geti eflzt. Það var raunverulega skylda ríkisins að leggja fram fé til byggingar háskólans og atvinnudeildarinnar og það er enn fremur skylda ríkisins að leggja fé til íþróttahúss og náttúrugripasafns. Þessari skyldu hefur verið af ríkinu létt með happdrættisl., án þess að rýrðir séu aðrir tekjustofnar ríkisins, heldur skapast ríkinu og beinar tekjur. Brtt. þær, sem frv. geymir, miða að því að létta enn frekar af ríkinu skyldu þeirri, sem það hefur gagnvart háskólanum, og skapa ríkinu um leið nokkrar beinar tekjur. Ég vænti því, að hv. d. taki þessu frv. vel.