03.12.1945
Efri deild: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

34. mál, sala spildu úr Kjappeyrarlandi

Frsm. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu í hv. Nd. Það fjallar um það að veita ríkisstj. heimild til að selja Búðahreppi. eða Búðakauptúni landspildu úr þjóðjörðinni Kjappeyri. Þetta er tiltölulega lítil spilda og liggur fast að kauptúninu og liggur öll við hina löggiltu höfn kauptúnsins. Þessi landspilda hefur ekki beinlínis verið byggð ábúandanum á Kjappeyrarlandi að undanförnu, en þó mun hann eiga þar rétt til einhverra nytja, og er ætlazt til þess, að þær haldist, þó að landspildan verði seld. — Það er talið, að Búðaþorp þurfi á þessari landspildu að halda, m. a. vegna þess, að dráttarbraut, sem á að koma upp í þorpinu fyrir báta, verður varla sett annars staðar en á þessari landspildu.

Það hefur að undanförnu verið venja að gefa kaupstöðum og kauptúnum kost á að fá keypt land, sem liggur í námunda við þessa staði og þorpin eða kauptúnin þurfa á að halda.

Landbn. þessarar hv. d. hefur kynnt sér þetta mál og sér ekki ástæðu til þess að bregða út af þessari venju, sem venjulega hefur átt sér stað um það að heimila slíka sölu lands, þegar svona stendur á. Þess er þó sérstaklega að geta, að þessi landspilda liggur í öðrum hreppi en Búðahreppi, nefnilega Fáskrúðsfjarðarhreppi, og hef ég orðið þess var, að íbúar Fáskrúðsfjarðarhrepps vildu kaupa þessa landspildu, ef hún annars verður seld. En landbn. þessarar d. leit svo á, að Búðakauptúni mundi vera miklu meiri þörf á að fá þessa landspildu keypta en Fáskrúðsfjarðarhreppi, og leggur n. til, að þetta frv. verði samþ.