03.12.1945
Efri deild: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

64. mál, ábúðarlög

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú gengið í gegnum hv. Nd. og var þar til umsagnar hjá landbn. þeirrar hv. d., og hefur sama n. þessarar hv. d. einnig farið höndum um frv. og getað mestmegnis fallizt á að mæla með samþ. þess eins og það liggur fyrir. En þó hefur landbn. talið rétt að gera nokkrar brtt. við frv., og eru þær alls ekki verulegar, heldur aðallega til nokkurrar skýringar og samræmingar. — Það er tilgangur þessa frv. að reyna að stemma stigu fyrir því, að byggilegar jarðir fari í eyði, til skaða og alls konar leiðinda fyrir viðkomandi sveitarfélög, hvort sem ástæðan er aðstöðuleysi viðkomandi manna eða það er af völdum brasks með jarðirnar. Ég geri ráð fyrir, að frv. þurfi ekki frekari skýringa við. Yfirlestur frv. ásamt þeim brtt., sem hér liggja fyrir, skýrir þetta mál, og virðist að öllu leyti í hóf stillt um þær skyldur, sem frv. skapar eigendum jarða um uppbyggingu o. s. frv. og um þann rétt, sem sveitarfélög fá jafnframt, til þess að fyrirbyggja, að jarðir leggist í eyði.

Ég vænti þess, að þessi fáu orð nægi til skýringar á tilgangi frv. og þá brtt. um leið, sem nm. bera hér fram, að áskildu því, að einn hv. nefndarmanna hefur áskilið sér óbundnar hendur gagnvart þessari brtt. Hygg ég, að frv., að brtt. meðtöldum, sé þannig, að ekki þurfi að rísa neinn ágreiningur um það, heldur vænti ég, að það fái samþykki hv. þd. eins og það liggur fyrir, að athuguðum og samþ. brtt.