05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

64. mál, ábúðarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur þegar 2. umr. um mál þetta fór fram, en sé, að það hefur verið afgreitt samkvæmt till. frá landbn., og geri ég ráð fyrir, að örlög þess séu ákveðin og ekki þýði þess vegna að koma með andmæli eða breytingartillögur. En ég vil skjóta þeirri fyrirspurn til hv. landbn., hvort breyting sú, sem hér er gerð, snerti bæði ríkissjóð sem landeiganda og eins einstaklinga. Sé það rétt skilið, mun ríkissjóður missa mikið af sínum jarðeignum undir hamarinn nema hann uppfylli þau skilyrði, sem fram eru sett í frv. þessu. Mér er það nokkuð kunnugt, að víða í sveitum eru húsakynni, sem ekki mundu talin fullnægja þeim ákvæðum, sem í frv. þessu eru sett fram. Það verður þó kannske minna deilt um þær jarðir, sem eru í eign hreppanna, en hinar, sem ríkissjóður á. En hart væri það þó, ef hreppsfélag, sem ætti jarðir, færi að beita þessum ákvæðum gegn öðrum jarðeigendum, til dæmis einstaklingum, en uppfyllti þau ekki sjálft.

Ég vil einnig benda á, að sum ákvæðin virðast óþarflega hörð, eins og það sem um er rætt í fyrstu grein. Það er nokkuð hart, að héruðunum skuli vera heimilt að ráðstafa jörðunum upp á lífstíð, en með því ákvæði er fyrirbyggt, að afkomendurnir geti notið þeirra, og sannast hér það, sem í biblíunni stendur, að „syndir feðranna koma niður á börnunum“. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en vildi óska svars við fyrirspurn þeirri, sem ég bar fram í upplíafi máls míns.