05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

64. mál, ábúðarlög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal játa, að þetta er mál, sem ég hef litla þekkingu á, en við fljótlegan yfirlestur virðist mér, að sumt í þessu frv. sé varhugavert og þörf væri á að ganga betur frá því. Mér skilst, að samkvæmt ákvæðum frv. sé sveitarstjórn heimilt að neyða eign af eiganda með kröfu um, að betur sé byggt á jörðinni, og man ég ekki eftir neinu ákvæði í lögum, sem gengur í svipaða átt. Það verður að sjá fyrir því, að ekki sé gengið á hluta eigandans. Ég gæti trúað, að þessu ákvæði yrði oft beitt gegn eigendum, sem búa utan sveitar, og er það varhugavert, að þeir eigi í þessu efni að sækja undir innansveitarmenn. Mér virðist því, að komið geti til álita, að utansveitarmenn hefðu hér einhvers konar málskotsrétt, þar sem til mætti kveðja matsmenn t. d. frá hæstarétti. Það sýnist svo sem sveitarstjórn geti náð eignum af mönnum, án þess að þeir hafi nokkur tök á að bera hönd fyrir höfuð sér. Minnsta krafa virðist mér sú, ef eigendur eiga að láta eign sína af hendi, að þeir, sem fá hana, setji jafnskjótt tryggingu fyrir því t. d., að byggt yrði innan einhvers ákveðins tíma á jörðinni. Það er varhugavert að setja svona róttæk ákvæði í lög án mikillar nauðsynjar, og þarf að setja trygg fyrirmæli gegn því, að þeim sé misbeitt. Má í þessu sambandi minna á, að á „mjóum þvengjum læra hundarnir að stela.“ Mér finnst fara mjög fjarri því, að hér sé tryggilega gengið frá því, að ekki sé stolið af eigendum jarða, og vildi ég óska að fá upplýsingar varðandí þetta atriði.