05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

64. mál, ábúðarlög

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort breyt. á 4. gr. ábúðarl., sem hér er miðað að, er eins róttæk og hv. 6. Þm. Reykv. virtist telja. Ég veit ekki, hvort hann hefur athugað, að eins og l. eru nú, hafa sveitarstjórnir allvíðtækt vald til þess að ráðstafa jörðum, ef þær byggjast ekki. Að vísu er það ekki söluréttur, en í mörgum tilfellum getur það orðið þannig fyrir eiganda, að hann verður að losa sig við jörðina, ef hann getur ekki byggt hana. — En ég kvaddi mér hljóðs aðeins til þess að drepa á, hvert viðhorf ríkissjóðs mundi verða til þessara mála, ef á að setja strangari reglur en hingað til hafa gilt um skyldur landsdrottna til þess að byggja upp jarðir og halda þeim í góðu lagi. Það er ekki vafi á, að það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að mörgum af þeim jörðum, sem ríkið á nú, er ekki viðunanlega við haldið. Samkv. ábúðarl. hefur ríkissjóður í raun og veru alveg sömu skyldur nú um jarðir eins og hver annar landsdrottinn til þess að byggja upp jarðir sínar. En í framkvæmdinni hefur þetta orðið þannig, að fjárveitingarvaldið hefur ætlað tiltekna fjárhæð á ári hverju undanfarið, 100 þús. kr., til þess að byggja upp á jörðunum. Um eitt skeið fjölgaði mjög þeim jörðum, sem komust í eigu ríkissjóðs, þannig að allmargir notuðu sér rétt þann, er þeir höfðu til þess að koma jörðum sínum í eigu ríkissjóðs, sérstaklega þegar jarðir voru yfirhlaðnar af skuldum. Og afleiðingin af þeirri fjölgun þjóðjarða er sú, að það þyrfti að síauka framlög ríkisins til þess að halda þessum jörðum í því horfi, að líkindi væru til, að þær yrðu byggðar framvegis. Þessar 100 þús. kr. hafa hvergi nærri hrokkið til þess að gera það, sem nauðsyn var að gera í þessu efni á jörðum ríkissjóðs. Það hefur verið farið fram á að hækka þessa fjárveitingu upp í 200 þús. kr., og ég ætla, að hv. fjvn. leggi með því, að sú krafa verði tekin til greina. En jafnvel þó að þetta framlag, sem veitt hefur verið til þessa, verði tvöfaldað, er mér fullljóst, að það hrekkur hvergi nærri til þess, að ríkissjóður geti orðið sæmilegur landsdrottinn, eins og ætti þó að mega gera kröfu um, að hann væri. Það er því alveg ljóst, að ef á að herða á þessum kröfum, þá er ekki nema um tvennt að ræða fyrir ríkissjóð, annaðhvort að leggja fram stórfé — sem væntanlega yrði að gerast með lántökum — til þess að byggja upp þær jarðir ríkissjóðs, sem byggingar eru nú ekki viðunandi á, eða að öðrum kosti að hefjast handa um sölu á jörðunum. Ég er ákaflega hræddur um, að þetta sé að færast í sama horf eins og það var, þegar við munum fyrst eftir, sem nú erum á fullorðinsárum, að það var hægt að fara um sveitirnar og benda á, hvaða jarðir væru í eigu hins opinbera. Þær þekktust úr á því, að þær voru verr setnar að öllu leyti en aðrar jarðir, bæði að byggingu og ræktun. Þær voru a. m. k. svo í þeim byggðarlögum þar sem ég þekkti bezt til, og hygg ég, að ekki væri erfitt að fá staðfestingu ~ því hér í hv. d. Og það er ekki æskilegt, að þetta fari aftur í sama horfið. Mér er ákaflega ósárt um, þó að ákvæði væru sett í 1. um það, að hafizt væri handa um að koma jörðum sem mest í eign einstaklinga í landinu. Sú breyt., sem varð þegar kirkjujarðir voru seldar árin 1908 til 1912 og var geysimikil, var augljós hverjum manni, sem hafði opin augu. Og ég ætla, svo framarlega sem íslenzkur landbúnaður á einhverja framtíð fyrir höndum, að eins mundi fara í annað sinn, ef hafizt værí handa um sölu á jörðum ríkisins. Menn hafa nú yfirleitt rúm fjárráð. Margir hafa góð skilyrði til að kaupa ábýlisjarðir sínar, og margir hafa viðunanleg fjárráð nú til þess að reisa á þeim viðunanlegar byggingar og laga þær að öðru leyti. Og ég get hugsað, að það væri heppilegur tími nú til þess að hefjast handa um að koma jörðum í sjálfsábúð. — Hin leiðin, að ríkissjóður færi að taka stórlán til þess að byggja jarðir upp, gæti náttúrlega kornið til álita líka, en að mínu áliti þó tæplega nema því aðeins að jarðirnar væru þá settar í erfðaábúð og viðhaldsskyldan og endurbyggingarskyldan færðist alveg yfir á ábúanda. Það þekkist í framkvæmdinni, að það eru yfirleitt bæði gerðar meiri kröfur til ríkissjóðs og líka minna skeytt um, þó að eigur ríkissjóðs gangi úr sér og fari forgörðum en á sér stað gagnvart eigum einstaklinga.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja. Ég vildi benda á það, hverjar afleiðingar samþykkt þessa frv. gæti haft. Og ég vildi undirstrika það, sem hv. þm. Barð. sagði, að ef ríkissjóður á að vera undir sömu sökina seldur eins og aðrir um skyldur til endurbygginga á jörðunum, þá verða hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að það mundi kosta ærin fjárframlög úr ríkissjóði.