05.12.1945
Efri deild: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

64. mál, ábúðarlög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Dal. fyrir það, að hann hefur fallið frá sínu fyrra harðræði og vill nú fresta málinu. Hitt er óþarfi, finnst mér, að gefa mönnum aðeins 24 tíma frest til þess að athuga þetta mál. Mér finnst hann vilja beita þar nokkru einræði, þar sem hann vill setja um þetta nokkurs konar ultimatíma, eins og stórþjóðir gera þegar um minni þjóðir er að ræða. — En ég hef alltaf munað eftir formannstign hv. þm. Dal., og hann þarf ekki að víta mig fyrir að gleyma henni, heldur var það hv. þm. Barð., sem gerði það.

Í ummælum hv. 1. þm. Eyf. kom fram sú gremja, sem mjög hefur komið fram hjá hv. þm. Framsfl. vegna þess að þeir hafa misst völd í landinu, og fór sá hv. þm. að blanda því inn í þetta mál. — Ég kannast ekki við, að ég eða aðrir stuðningsmenn núverandi hæstv. ríkisstjórnar hafi á nokkurn hátt viljað beita bændastéttina ofbeldi. Því fer alveg fjarri. Löggjöf sú, sem sett hefur verið af hæstv. ríkisstjórn um mál þeirrar stéttar, hefur á allan veg gengið í þá átt að veita landbúnaðinum tryggingar, sem hann ella hefði ekki haft, ef þessi löggjöf hefði ekki verið sett, og að fá bændum í hendur völd, sem áður voru í höndum annarra manna. Svo að ég verð að segja, að það er fullkomið öfugmæli, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur um það mælt. Hinu tjáir ekki að neita, að aðalstuðningsorð hans í hans fyrri ræðu um frv., sem hér liggur fyrir, var, að það væri ekki til mjög mikils tjóns. Og varðandi það efni, sem sá hv. þm. tók fram nú, þá tók hann fram, að hann áliti, að það þyrfti að breyta öðrum lögum til þess að frv. komi að fullu .gagni. Og það er þess vegna, sem ég álít, að frv. þetta þurfi frekari athugunar við. Ég tel það góðan tilgang, sem fyrir mönnum vakir með þessari lagasetningu, en að hún sé þess eðlis, að það þurfi að gæta varúðar um þau ákvæði, sem þar eru sett. Og um þetta virðist mér hv. 1. þm. Eyf. geta verið mér sammála og það því koma úr hörðustu átt, ef hann deilir á mig af þessu tilefni.