29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon.) :

Út af fyrirspurn, sem hv. þm. N.-Ísf. beinir til mín, vildi ég taka fram, að samningurinn milli slysavarnarsveitanna á Vestfjörðum annars vegar og hæstv. dómsmrh. hins vegar, sem prentaður er sem fylgiskjal með till. til þál. á þskj. 610, var gerður með fullu samþykki ríkisstj. Ef svo fer, sem líkur standa til, að varðbátarnir, sem keyptir voru, verða ekki hæfir til að annast þá starfsemi, sem í samningnum ræðir um, geng ég út frá því, að ríkisstj. geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að samningnum verði fullnægt, annaðhvort með því að kaupa nýtt skip eða láta byggja nýtt skip. Hvor leiðin verður farin, hefur ekki verið rætt um, og get ég ekki gefið neina yfirlýsingu um það. En hitt vildi ég segja fyrir hönd ríkisstj., að það verður reynt að standa við samninginn eins fljótt og unnt er á þann veg, að fullnægt verði ákvæðum hans í öllum greinum.