09.11.1945
Neðri deild: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 105 er, eins og í grg. segir, flutt fyrir tilmæli hæstv. atvmrh. Forsaga málsins er nokkuð löng, og ég mun þess vegna ekki fara langt út í hana, en aðeins geta um helztu atriðin, sem urðu þess valdandi, að þetta frv. er fram komið. Það þótti sem sé bersýnilegt í lok ágústmánaðar s. l., að síldarvertíðin mundi bregðast að verulegu leyti. Og auk þess sem hæstv. atvmrh. sýndist, að þörf mundi vera einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir vandræði í framtíðinni vegna aflabrests, þá sýndist einnig, að aflabresturinn á þessari vertíð gæti haft svo alvarleg vandræði í för með sér fyrir ýmsa útvegsmenn, að það gæti haft nokkur áhrif á rekstur skipanna í framtíðinni. Þótti því ekki fært, að ríkið sæti aðgerðarlaust hjá, þegar svo stæði á. Þess vegna skipaði hæstv. atvmrh. 5 manna n. til þess að rannsaka og gera till. um þessi mál. Eftir þeirri skipun, sem n. fékk, var verk hennar tvíþætt. Í fyrsta lagi var n. ætlað að gera till. um að verja útgerðina áföllum, sem orsakast af óviðráðanlegum orsökum, svo sem aflabresti, og í öðru lagi skyldi hún gera till. um aðstoð við þá útvegsmenn, sem væru illa staddir eftir vertíðina í sumar. N. hefur nú ekki skilað áliti um fyrra atriðið eða gert till. um það. N. komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að það hefði alvarlegar afleiðingar, ef ríkið veitti ekki útvegsmönnum áframhaldandi rekstrarlán. Og margir síldarútvegsmenn verða að stoppa, ef ríkið hleypur ekki undir bagga með þeim að einhverju leyti.

Hæstv. atvmrh. sendi sjútvn. þetta frv. ásamt bréfi, þar sem hann fór fram á, að n. flytti frv. Sjútvn. þessarar d. ræddi þetta við sjútvn. Ed., og varð niðurstaðan sú að flytja frv. nokkuð breytt, en breyt. tryggja ríkið fyrir skakkaföllum. N. bar þetta undir ráðh. og féllst hann á það.

Ég tel svo, að ekki þurfi að ræða þetta nánar. Útvegsmenn bíða með óþreyju eftir því, hvaða afstöðu Alþ. tekur til þessara mála. Þetta er ekki beiðni um styrk, heldur lán, og í frv. er gert ráð fyrir, að vextir verði fremur lágir. Í frv. er líka reynt að tryggja, að þeir, sem lánanna njóti, setji tryggingar fyrir þeim. Það má e. t. v. segja, að þeir þurfi ekki lán, ef þeir geti sett tryggingar, en þessu er þó öðruvísi háttað. Hér verður miðað við tryggingar, sem bankarnir telja ekki fullnægjandi. Það er algengt, þótt maður eigi verðmætar eignir, að maður fær ekki lán í banka nema að vissu marki.

Ég vil svo ekki lengja þessa framsögu. Þetta er ekki ölmusubeiðni, heldur aðstoðarbeiðni, og vona ég, að litið verði á það með skilningi, og einnig vildi ég mælast til þess, að það verði sem minnst tafið, því að það var þegar orðinn dráttur á því áður en það kom til Alþ., því að rétt þótti að ræða það vel, svo að það yrði sem bezt undirbúið. — Ég óska svo eftir, að þessu máli verði vísað til 2. umr.