23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Eysteinn Jónsson:

Ég vil segja nokkur orð út af brtt. minni á þskj. 205. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður láni síldarútvegsmönnum nokkra fjárfúlgu, eftir því sem nánar er tilgreint í l. Mér finnst eðlilegt, að þegar ríkið gengur í ábyrgð fyrir slíkum lánum, þá komi það fram í l., að ætlazt sé til þess, að eigendur þeirra útgerðarfyrirtækja, sem koma til greina við lánveitingarnar, taki ábyrgð gagnvart ríkinu á þessum lánum. Þetta kemur af sjálfu sér, þegar einstaklingar gera út skip, og það er það algengasta. En svo er það einnig til, að hlutafélög hafa verið stofnuð til að reka bátaútveg. Þegar þannig er ástatt, er engin skylda fyrir eigendur að taka þess háttar ábyrgð á lánum, en mér finnst rétt í þessu tilfelli að gera ráð fyrir, að löggjafinn heimti það. Það má segja, að sé opið eftir frv. óbreyttu að gera þá kröfu, að lántakendur gangi í þess háttar ábyrgð, en þó er ekkert um það sagt, og finnst mér réttara að taka það þá berlega fram, nema þá að aðrar tryggingar séu fyrir lánunum, því að svo góðar tryggingar geta verið boðnar fram, að ástæðulaust sé að heimta slíka ábyrgð. Nú getur verið, að einn hluthafi skerist úr leik og vilji ekki taka á sig ábyrgðina og setji félagið þar með í vandræði, og þess vegna hef ég talið rétt að hafa þetta skilyrði ekki alveg fast bundið.

Ég flyt þessa brtt. af því, að sjútvn. gafst ekki tími til að bera hana fram, en mér leikur grunur á, að félagar mínir í n. hafi ekkert á móti henni. Hæstv. atvmrh. er líka kunnugt um hana og mun ekki hafa á móti því, að hún sé sett í lögin.