23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var út af þessari till. Mér finnst þetta mikils vert atriði og geta komið félögunum í vanda við að taka lán, og mér finnst því, að ætti að fresta umr., þar til n. sem slík hefði sett sig inn í till. Eins og hv. flm. gat um, þá er vel hugsanlegt, að einstakir hluthafar neiti að taka persónulega ábyrgð á slíku láni, hluthafar, sem hugsa sem svo, að þeir vilji ekki stofna sínum persónulega fjárhag í neina sérstaka hættu, sem vel gæti verið, ef þeir gengju í persónulega ábyrgð. Og þegar ráðh, ætti síðan að úrskurða, hvort komnar væru fullkomnar tryggingar, þá gæti svo farið, að tryggingarnar yrðu ekki úrskurðaðar nægar, og þannig gæti þessi eini hluthafi orðið til þess, að félagið fengi ekki slíkt lán, auk þess, sem ég tel prinsipielt, að hér sé verið að taka upp varhugaverða reglu. Eins og fram hefur komið frá n., þá er gert ráð fyrir, að þessi lán séu ekki veitt nema fullnægjandi tryggingar séu settar, en að einskorða það við persónulega ábyrgð hluthafa álít ég ekki rétt, heldur mundu fyrirtækin reyna að finna þær tryggingar með veði eða ábyrgðum, sem lánveitandi léti sér nægja.

Nú er það þannig, að útgerðarfyrirtæki eru smátt og smátt að færast nær því að hafa takmarkaða ábyrgð. Það hefur sína galla, mér er það ljóst, en ég held samt, að við ættum ekki með slíkri samþykkt, sem þessari að setja stein í götu þess, að svo megi áfram verða.

Án þess að leggja á það mikla áherzlu geri ég það að till. minni, að sjútvn. fái tóm til að athuga málið, því að þetta liggur ekki alveg eins ljóst fyrir og virðist koma fram hjá hv. flm.