23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Garðar Þorsteinsson:

Hv. síðasti ræðumaður hefur ekki getað sannfært mig. Mér virðist till. með öllu óþörf, í fyrsta lagi af því að þar er ekki skilyrðislaus krafa, heldur aðeins ef aðrar tryggingar eru ekki fullnægjandi. Í 4. gr. segir, að lánið skuli veitt, ef settar séu þær tryggingar, sem n. metur gildar. Mér skilst, að þetta sé nægilegt, því að ef eigendur geta ekki sett veð, sem n. telur hægt að veita lánið út á, þá getur hún krafizt ábyrgðar hluthafa, og það veit hv. flm., að er algengt fyrirbrigði, sérstaklega þegar fór að halla undan fæti hjá útgerðinni, því að þá neyddust hluthafarnir til að ganga í persónulega ábyrgð. Mér skilst því, að það sé óþarft að setja inn í l., að það skuli vera höfuðskylda. Við verðum að hafa það í huga, að það fer ekki alltaf saman, þeir, sem eiga hlutafé, og þeir, sem lifa á fyrirtækjunum. Það er ekki óalgengt, það vita hv. þm., að viss fjölskylda skjóti saman fé sem hlutafé, sem sé síðan skráð sem eigendur og hluthafar í fyrirtækinu, en það eru allt aðrir menn, sem lifa á rekstrinum og hafa sína lífsafkomu af honum. Það er því dálítið hart, ef slíkir hluthafar þurfa að ganga í persónulega ábyrgð frekar en þeir sjálfir vildu, það þarf enga sérvitringa til. Svo er þess að gæta, að hlutafjárupphæðirnar eru ákaflega mismunandi miðað við reksturinn. Sum útgerðarfyrirtæki hafa mikinn rekstur, en tiltölulega lítið hlutafé, en önnur lítinn rekstur og mikið hlutafé, svo að þetta getur komið misjafnlega niður.

Mér virðist, að eins og 1. gr. er orðuð, þá sé opið svið fyrir n. að óska eftir, að fullnægjandi tryggingar séu settar fyrir lánunum og þá þar á meðal að eigendurnir séu gerðir ábyrgir persónulega. Þetta gera bankastofnanir iðulega, og þetta mundi n. að sjálfsögðu gera, þegar svona stendur á, og því óþarft að setja það sem skilyrði í löggjöfina sjálfa. Ég mun því greiða atkv. á móti þessari till., því að mér finnst eðlilegt, að sá aðili, sem um þetta mál á að fjalla, sjútvn., ætti að láta frá sér heyra um málið áður en endanlega er gengið frá því.