26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

78. mál, aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1945

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Máli þessu var frestað, eftir beiðni hv. 2. þm. Eyf. Tilefnið var brtt. á þskj. 205, og óskaði hv. þm., að sjútvn. athugaði málið nánar. Nú hefur sjútvn. orðið sammála um eftirfarandi:

N. vill breyta 2. gr. frv., þannig að orðin „þeirra íslenzku skipa“ falli niður. Ástæðan er sú, að við athugun málsins hefur komið í ljós, að nokkrir hafa stundað hér sjósókn með leiguskipum og ýmsir þeirra eiga mikið af veiðarfærum. Það hefur því ekki þótt rétt að hafa þessa menn alveg afskipta, þó að þeir verði hins vegar ekki lagðir til jafns við aðra útgerðarmenn. N. hefur því komið sér saman um, að það skuli falið úthlutunarn. að ákveða um þetta og hún hafi heimild til að lána góðum útgerðarmönnum, þó að þeir hafi leiguskip.

Þá hefur n. samþ., að í stað orðsins „4“ í fyrstu málsgr. komi: 5. Það þótti ekki heppilegt, að nm. væru 4, því að ef ágreiningur risi, yrðu. málin ekki útkljáð og auk þess ekki mikill kostnaðarauki, þó að mennirnir væru 5. Þá kem ég að brtt., sem olli því, að málinu var frestað, en efni hennar er það, að ábyrgð lánsins skuli vera persónuábyrgð hluthafa, ef ekki er um aðra ábyrgð að ræða. Nú hefur komið til athugunar hjá n., að einstakir hluthafar gætu stöðvað lánveitinguna með því að skerast úr leik. Það er oft leitað til manna, sem ekki eru í þessum atvinnurekstri, um fé, og oft láta menn nokkurt fé í þessi fyrirtæki, en ætla sér ekki að koma þar nærri á annan hátt og hyggja ekki á gróða með þeim aðgerðum. Það er því ef til vill ekki réttmætt að knýja þessa menn til persónulegrar ábyrgðar í sambandi við þau lán, sem hér er um að ræða. N. hefur því komið sér saman um að flytja hér sameiginlega till. nokkuð breytta frá þeim fyrri, og er innihald hennar, sem koma skal á eftir 2. mgr. 4. gr.: Nú sækir hlutafélag eða annað félag um lán, og skal þá sett það skilyrði, að aðalhluthafar séu í sjálfsábyrgð fyrir lánum, ef ekki er um aðrar tryggingar að ræða.

Ég vona svo, að enginn frekari ágreiningur verði um þetta mál og legg þessa till. n. fram sem skriflega brtt.