14.12.1945
Efri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

42. mál, fyrirhleðsla Héraðsvatna

Frsm. (Páll Hermannsson) [Upphaf ræðunnar vantar í hndr.] :

Það hafa verið gerðir garðar, að ég ætla 4, með framlagi eingöngu frá héraðsbúum. Vötnin hafa þegar eyðilagt tvo garðana og eru komin fyrir endann á þeim þriðja, og er þá í hættu allt undirlendið innan við Skagafjarðarbotn, Hólmurinn og engjalöndin. Þessi lönd geta eyðilagzt, ef vötnin eru látin afskiptalaus. Í hættu er þarna líka þjóðvegurinn, sem liggur þvert yfir Skagafjörðinn, eins og vita má, þegar stórvötn brjótast svo út úr farvegi sínum. Þm. Skagf. hafa flutt þetta frv. í Nd., sem er um það, að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við að verja vötnin frá því að brjóta upp nytjalönd í líkum hlutföllum og áður hefur verið ákveðið um fyrirhleðslu á vatnasvæðum Þverár og Markarfljóts. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 7/8 kostnaðar, sem verða mun af fyrirhleðslunni, en aðeins 3/4 kostnaðar, sem verða mun af flóðgáttum, sem hér er um að ræða. Þetta er alveg sama hlutfall og á vatnasvæðum Þverár og Markarfljóts, þó að því undanteknu, að nokkuð af framkvæmdunum við Markarfljót er að öllu leyti kostað af ríkinu, sem talið er, að standi sérstaklega í sambandi við samgöngumál. Þar verður þetta enn meira samgöngumál en í Skagafirðinum. Frv. þetta hefur hlotið einróma fylgi í Nd. Ég ætla, að það hafi ekkert mótatkvæði fengið, að ég held, þeirra, sem þá voru á fundi, og ætti það að sýna, að sú hv. d. hefur talið málið tímabært.

Landbn. þessarar d. hefur athugað frv. og sýnist það vera sanngjarnt að öllu leyti og eðlilegt og leggur einróma til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.