06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

66. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eftir beiðni hæstv. félmrh. hefur allshn. þessarar d. flutt þetta frv., sem skýrir sig alveg sjálft. Það er lagt til, að niður verði fellt ákvæði varðandi bæjarstjórnir, að ákvæði l. frá 1936 um það, að það sé bannað, að í bæjarstjórnum sitji á sama tíma hjón og menn skyldir að niðjatali. Engin sérstök rök virðast mæla með því, að þetta ákvæði gildi fyrir bæjarstjórnir, ekki sízt eftir að bæjarstjórnir eru orðnar mannmargar, svo að minni hætta ætti að vera fyrir hendi um það, að einstakar fjölskyldur verði látnar ráða lögum og lofum í bæjarstjórnum, þó að þetta ákvæði væri ekki lengur í l. — Hins vegar hefur ekki verið lagt til að breyta ákvæðunum hvað snertir hreppsnefndir, sem eru fámennar. Ég hefði getað fallizt á, að svo hefði verið gert, og n. áskilur sér rétt til, ef breyt. kæxriu fram í þá átt að láta þetta einnig ná til hreppsnefnda, að fylgja því er fram komi.

Að öðru leyti er ekki þörf á að rökræða þetta mál, því að mér virðist ljóst, að það mæli engin sérstök rök með því, að hjónum eða mönnum skyldum að niðjatali sé meinað að sitja saman í bæjarstjórn yfirleitt. Við vitum, að þar sem vagga þingræðisins stendur, í Bretlandi, hefur verið altítt; að t. d. feðgar sitji saman á þingi. Og hvers vegna skyldi það ekki einnig vera á samkomum, sem fjalla um bæjarmálefni yfirleitt? N. leggur til, að þetta frv. gangi áleiðis eftir þingsköpum, og þar sem það er flutt af n., er ekki ástæða til, að því verði vísað til n. En ég vil taka það fram, að einstakir nm. hafa óbundnar hendur um breyt., sem fram kynnu að koma, sérstaklega í þá átt, sem ég hef skýrt frá.