17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

148. mál, nýbyggingarráð

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég skal játa, að það hafa orðið nokkur mistök um framlagning þessa máls, sem stendur í sambandi við það, hve langt er áliðið þingtímans. Ég hafði ekki heldur séð þetta frv. áður en það var prentað. En þó hafði verið sagt við mig í síma, að þetta frv. yrði prentað og vænzt þess, að fjhn. vildi flytja frv. Það er því ekki hægt að segja, að eftir strangasta formi hafi fjhn. gert það, því að enginn nefndarmanna hafði lesið frv. Við fjhnmenn munum taka frv. þetta til athugunar milli 1. og 2. umr., og nm. eru allir óbundnir viðkomandi fylgi við málið, eins og í grg. frv. segir. En ég vona, að hv. þm. virði þetta á betri veg og leyfi frv. að fara gegnum atkvgr. nú til 2. umr.