17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

148. mál, nýbyggingarráð

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir þetta reyndar nokkuð einkennilegt, sem kom fram í ræðu hv. þm. V.-Ísf., form. fjhn. Ég hafði búizt við, að hv. form. n. hefði af einhverjum ástæðum ekki getað náð til mín, en hann og nokkrir aðrir nm. hefðu tekið ákvörðun um að flytja frv. En nú skilst mér, að svo hafi ekki verið. Mér þykir það einkennilega að farið af hæstv. ríkisstj. að setja nafn einhverrar n. eða þm. sem flm. á frv í staðinn fyrir að flytja þau sjálf. Þetta kann ég hálfilla við og tel, að hæstv. ríkisstj. ætti heldur að kannast við sín börn og bera þau hér fram sjálf.