12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Gísli Sveinsson:

Það er að vísu eðlilegt, að nýmæli komi hér fram, en ég minnist þó varla að hafa heyrt slíkan málflutning hér á Alþingi sem þennan. Í rauninni skiptir ekki miklu máli, hvaða maður það er, sem fer með þetta vald, og verða hv. þm. að gera sér ljóst, að um leið og kjörbréf hefur verið samþ., þá hefur viðkomandi þm. rétt til að starfa á Alþingi, hvernig svo sem hann er þangað kominn. Þá vil ég spyrja, hvort nokkur slík rekistefna hafi átt sér stað í svipuðum tilfellum áður, t. d. þegar varamaður tók sæti hv. 2. landsk.?

Ég tel, að forseti, geti ekki, eins og þessu máli er nú komið, meinað þessum hv. þm. að taka þátt í störfum þingsins. Ég veit ekki betur en þm. hafi oft horfið af þingi áður og ekki orðið af því nein rekistefna, og virðist mér sýnt að láta þetta kyrrt vera, sem venja hefur verið til.