17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

148. mál, nýbyggingarráð

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Mér virðist það vera fram komið í þessu máli, að það sé augljóst, að það verði að prenta þskj. upp og flytja málið síðan formlega í hv. d. Það er upplýst, að rangt er frá skýrt í grg. frv., og er grg. þá röng heimild, ef hún er tekin þannig í Alþt. Og það er einnig játað af hv. form. fjhn., að frv. þetta hefur aldrei verið borið upp í fjhn. og aðeins samþ. gegnum síma af form. sjálfum, að n. flytji það. Og það er ekki upplýst enn, hve mikið af hv. fjhn. stendur að frv. Ég tel það því óumflýjanlegt, að hæstv. forseti fresti meðferð málsins nú með öllu og taki það af dagskrá og að þskj. verði svo prentað upp, og það síðan formlega borið upp í fjhn., hvort hún vill flytja frv. eða ekki. Því að ef á að fara að taka upp þær starfsaðferðir hér í hv. d., að menn fari að flytja frv., sem þeir aldrei hafa séð, og menn bendlaðir við flutning frv., sem þeir hafa aldrei samþ. að vera flm. að, þá eru það slæm vinnubrögð, og með því yrðu heimildir Alþ. falsaðar.