19.12.1945
Neðri deild: 56. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég sé að hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) er ekki staddur hér í deildinni, en hann átti að fylgja frv. þessu úr hlaði fyrir hönd meiri hl. allshn. Allshn. tók að sér að flytja frv. þetta fyrir hæstv. ríkisstjórn. Að öðru leyti skýrir frv. sig sjálft.

Eins og stendur í grg., er lagt til, að fundum Alþingis sé frestað til 1. febrúar n. k., en framhaldsfunda þess bíða talsverð verkefni. Alþfl. hefði kosið, að hægt hefði verið að afgr. húsnæðismálin, sem nú liggja fyrir, áður en fundum þess er frestað, en af því gat ekki orðið. Alþfl. hefði og kosið, að Alþingi hefði komið saman þegar eftir nýár til þess að afgreiða þetta mál, en af því að frestun til 1. febr. er að vilja meiri hl. þingmanna, vill flokkurinn ekki setja sig þar á móti. Um frestun samkomudags hins nýja Alþingis er það að segja, að það getur varla komið saman fyrr. En ef eitthvað sérstakt kemur upp, er þó hægt að kalla það saman fyrr. Ég vildi láta þessi orð falla af hálfu Alþfl. í trausti þess, að húsnæðislöggjöfin verði afgr. þegar í febrúar.