19.12.1945
Neðri deild: 56. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur tekið fram, er frv. þetta flutt af meiri hl. allshn. Ég óskaði ekki eftir að flytja þetta mál eins og það er. Eins og kunnugt er, ber næsta þingi, sem ætti samkv. lögum að koma saman 15. febr. n. k., að sinna fjárlögumr og það á að falla í hlut þess Alþingis að afgreiða fjárlög fyrir árið 1947. Nú get ég gert ráð fyrir, að eins og ástæður eru, sé erfitt að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár í vetur, og það má ætla, að þegar kemur fram á útmánuði verði og nokkuð óljóst um framtíðina, það sé því allmikil ástæða til þess, að ekki verði gengið frá fjárlögum fyrir næsta ár. Úr því að í ráði er að afgreiða meiri háttar mál eftir áramót, er sýnt, að Alþingi, sem nú situr, yrði ekki lokið fyrir 15. febr. n. k., og þess vegna eðlilegt, að samkomudegi þess sé nokkuð seinkað. Eins og stendur í frv. er lagt til, að samkomudagur næsta reglulegs Alþingis verði 1. október, en vitaskuld er heimilt að kalla það saman fyrr á árinu. Nú finnst mér ekki rétt að fresta samkomudeginum svo langt fram í tímann, þrátt fyrir það, þótt kosningar eigi að fara fram á komanda vori. Eðlilegast hefði verið, að hið nýkjörna þing hefði það meira á valdi sínu, hvenær það kæmi saman. En ríkisstjórnin hefur það gersamlega á sínu valdi að fresta þingi til 1. október, hvernig sem öllu er háttað. Fyrir þessar sakir óskaði ég ekki að vera meðflm. að frv. þessu og held ég, að öllu viðfelldnara hefði verið að haga máismeðferð allri með dálítið öðrum hætti.