19.12.1945
Neðri deild: 56. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Eins og tekið hefur verið fram, fjallar frv. þetta um frestun samkomudags næsta reglulegs Alþingis til 1. okt. n. k. Mér virðist sú braut, sem með þessu er farið inn á, allvarhugaverð, og eins og nú er ástatt, ástæðulaust að haga máli þessu á þennan veg. Það varð ekki úr því ekið við hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokka hennar, að Alþingi því, sem nú situr, yrði frestað skemur en til 1. október. Fór það og svo, að ríkisstj. komst í sjálfheldu og varð að gefa út bráðabirgðalög, sem eigi er líklegt, að þurft hefði að vera, ef Alþingi hefði komið saman mánuði fyrr, eða 1. september. Vil ég nú beina því til hv. þm., hvort eigi mundi hægt vera að ljúka þingi því, er nú situr, væri enn mánuður til starfa, eða hvað þeir færa fram í móti því. Ber í því efni að líta á það, að nú eru fjárlög að algerast, eða hver hv. þingmanna vill voga að mótmæla þeim rökum, sem ég nú hef fram flutt? Þar eð ég tel einn mánuð mundu til þess nægja að ljúka störfum þingsins, og munu hv. þm, geta á það fallizt, vil ég fara fram á, að 1. september verði ákveðinn sem samkomudagur næsta reglulegs Alþingis, nema fyrr væri. Ríkisstjórnin hefur það á valdi sínu samkv. þessu að kveðja Alþingi eigi fyrr saman til funda en 1, október, en það vald er tekið af Alþingi. Kosningar til Alþingis eiga, sem kunnugt er, fram að fara á næsta vori. Mætti ætla, að þær kosningar hefðu þær breytingar í för með sér á skipan þess, að hið nýkjörna Alþingi æskti þess að koma saman fyrr en tilskilið er í þessu frv. En það er, eins og ég áúur tók fram, í hendi hæstv. ríkisstjórnar. Hún hefur það á valdi sínu að fresta samkomudeginum þar til takmarkið er komið, 1. október. Hæstv. ríkisstjórn getur sagt á þá leið, að þetta mundi hún ekki gera, væri þörf sú kveðja þingið fyrr til setu, en ég sé ekki ástæðu til þess, að hún hafi svo mikið vald í þessu efni. Það getur orðið svo ástatt, að kalla verði þing saman þegar eftir kosningar, svo sem vegna stjórnarmyndunar. Ég tel eðlilegast, að Alþingi sjálft hafi fullt vald í þessu efni, en selji engri stjórn eindæmi.

Nú er 1. september ekki rétt eftir kosningar. Þá hafa þegar liðið tveir sumarmánuðir frá kosningum. En sú tímaákvörðun er þó öllu nær lagi en 1. október. Ég vil þess vegna beina því til hv. nefndar, að hún, í samráði við hæstv. ríkisstjórn, athugi á milli umræðna möguleika á því, að 1. september verði valinn samkomudagur næsta reglulegs Alþingis.