20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hafði búizt við, að allshn. mundi eiga tal um þetta mál, en ég þykist sjá af þessu að það mun ekki vera meiningin, svo sjálfsagt sem það þó hefði verið. Þetta þing hefur látið undir höfuð leggjast að vinna nema fjórða hluta þess, sem því bar að inna af höndum. Hitt á að bíða hins nýkjörna þings þar til seinast á árinu. Meginviðfangsefni þess þings verða þess vegna að bíða hausts, og við því er ekki mikið að segja. En hitt er svo allt annað, að það eigi að vera á valdi hæstv. ríkisstj., hvenær hið nýkjörna þing kemur saman. Verði breyting á skipan Alþingis, þannig að önnur sjónarmið verði þar ráðandi, þá á sá vilji að fá að njóta sín strax að afloknum kosningum. En ef engin breyting verður þar á, þá hefur ríkisstjórnin í hendi sér sem áður, hvenær það kemur saman. Mig undrar stórum þessi starfstilhögun þingmeirihlutans. Með þessu sýnir hann greinilega manndóm sinn og lundarfar. En ég hélt, að hann vildi ekki koma svo berstrípaður fyrir augu þjóðarinnar og sýna svona ljóslega, hvernig hann er innrættur. Ef þing kemur ekki saman fyrr en 1. október, má búast við, að ríkisstj. þurfi að grípa til þess að setja bráðabirgðalög, eins og gert var á s. l. hausti, en Alþingi ætti ekki fyrir fram að gera gyllingar til slíks. Lagasetningin frá því í september í haust ætti að vera hv. þm. í of fersku minni til þess.

Ég á ekki annars úrkosta, fyrst málið er svona hespað af, en að bera fram skrifl. brtt. við frv. Hún er við 1. gr. þess og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir 1. dag októbermánaðar“ komi: 1. dag ágústmánaðar.“

Það ber enga nauðsyn til þess, ef svo vill verkast, að þingið hafi langa setu, þótt það kæmi saman á þeim tíma, sem ég legg til. En það er rétt, að hinir nýkjörnu þingmenn eigi þess kost að hafa hönd í bagga með því, hvernig störfum þingsins verður hagað. — Ég vil að svo mæltu afhenda hæstv. forseta hina skriflegu brtt. mína til þess að leita afbrigða fyrir henni.