20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svara þessari gamanræðu, sem hv. 1. þm. Árn. var að flytja hér. Þetta voru talsverð gífuryrði, og undrar mig, að svo vanur þingmaður skuli láta slíkt frá sér fara, því að ég trúi ekki, að hann hafi eins vont álit á innræti stjórnarinnar og hann vildi vera láta.

Það mætti athuga till. hv. 10. landsk. (GSv) um að þingið komi saman 1. september. En af öllu, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, var eitt atriði, sem máli skiptir og sjálfsagt er að fara eftir, en það er, ef það kemur í ljós, að vilji þingmanna stendur til þess að þing komi saman fyrr en ákveðið kann að verða. Mér finnst ákaflega líklegt, að farið yrði eftir vilja þingsins í þessu efni, þegar þar að kemur. Ég get því ekki tekið undir mál þeirra hv. 1. þm. Árn. og hv. 10. landsk. í ræðu þeirri, sem hinn síðarnefndi flutti hér í gær. Ég held, að það sé haft eftir hv. 2. þm. S.-M. (EystJ), að Framsfl. væri ekki ráðinn í því, hvort hann yrði á móti þessu frv. Hv. formaður allshn. sagði mér frá þessu. (EystJ: Ég held, að hæstv. forsrh. ætti að venja sig af því að vera að bera slúður á milli). Það kann að vera, að betra sé að hafa slíkt skriflegt.