20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Eysteinn Jónsson:

Ég vil segja hér nokkur orð út af ummælum hæstv. forsrh. Þessi hæstv. ráðh. gerðist nokkuð stórorður, er hann sagði, að ég og hv. 1. þm. Árn. hefðum verið með skrípalæti, látalæti og gjálfur. Við þekkjum það allir, að þetta er einmitt háttur hæstv. forsrh. að grípa til svona orðaskaks, er hann er illa stæður hvað rök snertir, til að draga athygli manna frá aðalefninu, og svo bætir hann við, að andstæðingar hans hafi engin rök fram að færa. Þetta er ekki nýtt hjá ráðh., því að þetta þekkjum við mæta vel. — Ráðh. reynir að leita fordæma til þess að fegra þessa ákvörðun sína, og hann finnur fordæmið frá 1933, og úr því að það er til, þá á ekki að vera hægt að finna neitt að því, sem nú er gert. Hæstv. ráðh. heldur sig hafa fengið þarna feitan drátt, en ég held honum skjátlist. Þessi veiði hæstv. ráðh. er víst eitthvað álíka og blágómudráttur. Blágóma er í fyrstu fagur fiskur, en eftir að hún er úr sjó dregin, líður ekki á löngu, þar til hún þornar upp og verður að engu. Ég held, að framburður hæstv. forsrh. sé eins og blágómudráttur. — Ég veit nú ekki, hvort þetta er alveg rétt eins og hæstv. forsrh. lýsir þingfrestuninni 1933, en hafi það verið svo, þá sýnir þessi framkoma hæstv. forsrh., á hversu hættulega braut við erum komin. Ef við gerum okkur ekki ljóst, hvaða afleiðingar slík fordæma endurtekning getur haft, mun verða haldið áfram á þessari braut og sífellt vitnað í ný og ný fordæmi. „Ég feta dyggilega í fótspor fyrirrennara minna,“ sagði ráðh. En svo koma aðrir á eftir og vilja ganga svolítið lengra, og munar þá ekki um, þótt þeir traðki svolítið á þingræðinu. Ef einhver fordæmi hafa orðið hættuleg, þá á ekki að endurtaka þau, heldur eiga þau að vera okkur til varnaðar. En nú hefur það sýnt sig, að til eru þeir menn, sem misnota sér heimildina um þingfrestun. Engin þingfrestun hefur verið misnotuð eins og sú síðasta, er þingi var frestað. Það er hægt að sýna, hvað af því getur leitt, þegar þingi er frestað, í misjöfnum stjórnarhöndum. Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði engin rök fært fram fyrir mínu máli. Ég kalla það rök, er ég benti á, hvernig hæstv. ríkisstjórn notaði sér þingfrestunarheimildina síðast, en það var þannig, að gefin voru út furðuleg bráðabirgðalög. Þingfrestun hefur verið misnotuð af núv. ríkisstjórn. Fordæmið, sem hæstv. forsrh. benti á, verður lítils virði, þegar þess er gætt, að þá voru engin dæmi til um misnotkun á þingfrestun, svo mér sé kunnugt.

Þá væri fróðlegt að heyra af munni hæstv. forsrh. svör við rökum mínum og hv. 10. landsk., að 1. okt. sé ekki heppilegur. Hæstv. forsrh. hefur ekki enn fært fram nein rök. Nú er fengin fullkomin reynsla fyrir því, að tímabilið frá 1. okt. til jóla muni ekki nægja til að ljúka þingstörfum. Fyrst sat þing þetta í heilan mánuð án þess að starfað væri að fjárlögunum. Sum mikilvægustu málin eru ekki lögð fram fyrr en rétt síðustu dagana, og svo komast margir þingmenn ekki heim fyrir jól. Og síðan verður að fresta þinginu til 1. febrúar og taka 6–8 vikur á næsta ári til þess að nota til að ljúka við aðalþingið 1945. Þannig hefur þetta farið úr hendi undir forustu hæstv. forsrh., og honum er bent á þetta. Og þess vegna er einkennilegt, að hann skuli binda sig við 1. október sem samkomudag reglulegs Alþ. 1946. Hann segir bara: Hv. þm. hafa engin rök — dómurinn er fallinn — það hafa engin rök komið fram, og þarf því ekki frekar því að sinna. — En miðað við reynsluna er ekki hægt að finna nein rök fyrir því að slá föstum 1. október sem samkomudegi Alþ. á næsta ári. Og það er full ástæða til þess að tortryggja hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi alveg sérstaklega vegna þess, sem þarf að gerast í september á næsta ári, og vegna þess, sem gert var í s. 1. september, og vegna þess, að hæstv. forsrh. getur engar ástæður fært fyrir því, að rétt sé, að þinghaldið eigi að byrja 1. október. Því að hann vill ekki segja, að þetta eigi að miðast við 1. október til þess að endurtaka sama leikinn og í haust s. l., af því að hann veit, að það mundu ekki þykja ánægjuleg tíðindi að lýsa því yfir, að þetta væri gert til þess að gera sömu ráðstafanir og í fyrra. Og það er kannske varla láandi, þó að hæstv. ríkisstj. líti svo á, að það mæltist illa fyrir, að stefnt sé að þessu. En í þessum umr. er þó þetta, sem fram hefur komið, nokkur þögull vottur um það, að hæstv. ríkisstjórn veit, hvað álitið er um hennar framkomu í sambandi við frestun á samkomudegi Alþ. og bráðabirgðal. á síðasta hausti.

Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að það skuli vera ætlunin að reka þetta mál áfram, ekki meira athugað en það er, og að það skuli ekki neitt tillit vera tekið til þeirra raka, sem fram eru færð í málinu. Þetta mál verður sjálfsagt að hafa sinn gang. En ekki finnst mér það vera til sóma fyrir hæstv. ríkisstjórn, að hún skuli ekki leita eðlilegs samkomulags um mál eins og þetta.