20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. taldi, að þær umr., sem hér hafa farið fram, væru gjálfur að morgni dags, og er það náttúrlega mjög virðulega sagt úr þessum stóli (!), þegar rætt er mjög mikils varðandi mál á Alþ., og ég hygg, að það orðalag sé svo að segja hæstv. núv. forsrh. einum samboðið. En það má segja, að það sé meira en gjálfrið eitt að morgni dags, sem kemur úr hans átt, sem sé ónot í garð hv. þm. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að það þýddi ekkert að ræða þetta mál til lengdar, því að það yrði gengið frá þessu máli á einn veg, hvað sem hver segði, það yrði samþ. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð, sem honum geðjast.

Ég get ekki látið hjá líða að benda á, sem ekki hefur komið glögglega fram í þessum umr., — viðvíkjandi fordæminu, sem hæstv. forsrh. er að ræða um, þegar hæstv. ráðh. bendir á, að svipað hafi verið gert árið 1933 og stefnt er að með þessu frv., sem hann sagði, að það hefði verið borið undir forseta deildarinnar, sem þá var hv. 1. þm. Árn., — að hann gleymdi, hver var í stólnum, sem hann er nú í, að það var einn af tryggustu fylgismönnum forsetans, sem þá snerist til fulls á aðra hlið upp úr þeim kosningum. Ég veit ekki betur en að það hafi verið hv. þm. V.-Ísf. (Forsrh.: Kunnasti lýðræðismaður á þingi. Þið voruð flokksbræður þá. Var, það ekki?). Og það er tvennu ólíku saman að jafna, annars vegar 1933 í íslenzkum stjórnmálum og hins vegar því, sem á sér stað árið 1945, mjög ólíku. Nú er vitað, að í landinu gildir löggjöf um einn aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sem varðar bændastétt landsins, sem verður að taka til meðferðar í september n. k. Átti nokkuð slíkt sér stað 1933? Ekki mér vitanlega. M. ö. o., þegar ákvörðunin var árið 1933 tekin um frestun á samkomudegi Alþ., fyrir forgöngu hv. núv. þm. V.-Ísf., þá var ekki vitað, að neina löggjöf yrði að afgreiða í september það ár, sem frestun samkomudags þingsins gilti fyrir, eins og þó nú er, þar sem vitað er, að löggjöf, sem snertir bændastétt landsins, verður að vera afgr. fyrir 15. sept. n. k. Þess vegna er frestun á samkomudegi Alþ. nú til 1. október ekkert annað en það að ákveða, að bændur skuli ekki fá tækifæri til þess að taka þátt í þeirri afgreiðslu á þingræðislegan hátt, heldur skuli sú afgreiðsla framkvæmd með setningu bráðabirgðalaga með einræði ríkisstjórnarinnar. Var nokkru slíku til að dreifa árið 1933? Ég vil spyrja hæstv. forsrh. og hv. þdm. um það. Því að ef það var ekki, þá er það vitanlega ekki annað en fleipur eða gjálfur að morgni dags að vera að bera þetta saman. — Það hefur verið hér talað um starfsaðferðir vissra ofbeldismanna undanfarið og jafnvel vakað yfir því mikinn hluta nætur. En ég vil nú biðja hæstv. ríkisstjórn, sem sérstaklega hafði forgöngu í þeim umr., í allri einlægni að bera saman þessi vinnubrögð, hvort þau eru ekki eitthvað svipuð vinnubrögðum þeirra manna, sem eru versta fordæmið í heiminum um einræði, sem sé nazistanna þýzku. Stjórnarlið þeirra kom saman og fól ríkisleiðtoganum að gefa út bráðabirgðalög um það, að hann þyrfti ekki að kalla þingið saman, nema honum sýndist. Og svo kom það saman, hvenær sem hann vildi. — Hér er nákvæmlega stefnt að því sama. Því að það er vitað, að í september n. k. verður að setja bráðabirgðalög, ef þing verður þá ekki starfandi, og hv. þm. eru að segja ríkisstj. bara að gera það, og svo skuli þeir segja já og amen við því. — Það væri líka þörf á að minnast á vinnubrögð hér á hæstv. Alþ. nú síðustu nótt, sem ég hygg, að séu ákaflega svipuð við afgreiðslu mála gagnvart andstæðingum þeim, sem nazistar höfðu, sem eru í fangabúðum nú. — Það hefur verið lögð hér fram till. til þál. sem vikið er að í grg. með, að rannsaka þurfi hugarfar manna fyrir styrjöldina. með tilliti til nazistiskrar einræðishneigðar fyrir styrjöldina. Ég held, að það ætti að bæta því við, að æskilegt væri að rannsaka, hvernig menn eru staddir um slíkt hugarfar, sem ráða nú í okkar stjórnmálum. — Það getur ekki búið nema tvennt hér á bak við, ef hæstv. ríkisstjórn er ófáanleg til að taka til annan dag en 1. október sem samkomudag Alþ. á næsta ári, eftir þau rök, sem fram hafa verið færð í þeim efnum. Annaðhvort, að hæstv. ríkisstjórn ætli að tryggja sér að sitja a. m. k. til 1. október, hvað sem þjóðin segir í kosningunum, eða þá hitt, að afgreiða ein hin þýðingarmestu lög, sem verður að gera í sept., á sama hátt og hún gerði s. l. haust, án þess að fulltrúar þeirrar stéttar, sem mest á undir því máli, hafi tækifæri til þess að segja eitt einasta orð um þau áður eða fái þar neinu um að ráða. Það getur ekki verið nema annaðhvort þessara mála, nema hvort tveggja sé. Og ég verð að segja, að það er talsvert lágt risið á Alþ. Íslendinga, ef á að fara að taka upp þessi vinnubrögð, sem eru a. m. k. mjög í áttina við þau vinnubrögð, sem unnin voru í Krollóperunni í Berlín 1934–1937. Og ég tel það mjög einkennilegt, ef svo fast er staðið á þessu frá hendi stjórnarlíðsins, því að það auglýsir betur en allt annað, að um þau vinnubrögð er hér að ræða, sem drepið hefur verið á, sem stjórnarliðið hefur í hyggju, og ekkert annað í þeim efnum.