20.12.1945
Neðri deild: 61. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal vera stuttorður um þetta mál. — Hv. þm. V.-Sk. hefur svarað mér allýtarlega í sínu áliti. Hann færir það fyrst fram, að það sé hætt við því, að stj. reyni að sitja áfram, þó að hún tapi við kosningarnar. Ég get bent á það, að 1934 var stj., sem hans flokkur treysti ekki nema í meðallagi, og sú stj. skildi við og ný stj. kom án þess þingið væri kvatt saman. Ég efast ekki um, að þessari reglu muni oftar hafa verið fylgt, t. d. 1927. Nú er þetta alveg eins. Þegar úrslitavaldið um þinghaldið er lagt í hendur forseta íslenzka lýðveldisins, þá á engin hætta að vera á misnotkun í því efni. Þá telur hv. þm. ótækt að draga frestunina til 1. okt. En þetta var gert líka 1934 og þá með samþykki allra framsóknarmanna. Nú heitir þetta, að bundið sé fyrir munninn á mönnum. En þetta er það, sem þm. hafa þurft að gera alla tíð. að fá ekki að tala allan ársins hring. Nú segir hv. þm., að þá hafi þetta horft öðruvísi við, því að þá hafi ekki legið fyrir mál, sem þingið þurfti að hafa til umr., að mér skilst, engin landbúnaðarmál, hvorki afurða- né verðlagsmál hafi legið fyrir á sama hátt og nú. En vill það ekki einkennilega til, að sú stj., sem kom á þessu sumri, kveður ekki saman þing, heldur gefur út bráðabirgðal. 1. ágúst 1934 um ráðstafanir til að greiða fyrir viðskiptum á sláturfjárafurðum og verðlagi á þeim? Og gefur hún ekki út önnur bráðabirgðal. 10. sept. það sama sumar, bráðabirgðal. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma og verðlag á þeim? Þeir töldu enga nauðsyn á því að kalla saman þing af þessu til efni. Það var ekki fyrr en mánuði síðar, að forsrh., sem þá var, gat þess í byrjun sinnar framsöguræðu um þessi mál, að hann teldi ekki ástæðu til að tala langt mál um þessi bráðabirgðal, o. s. frv. Þarna var ekki um að ræða breyt. á eða framlengingu gildandi l., heldur var þarna um að ræða stofnlög, fyrstu lögin, sem sett voru í landinu um þessi efni. Ég verð að segja, að mér finnst hv. þm. hafa gengið nokkuð langt í því að líkja framferði okkar hér á þessu þingi við framferði nazista í Krollóperunni. Það var miklu nærtækara að líkja okkar framferði nú við allt þetta framferði 1934, því að það er nákvæmlega eins í öllum atriðum. Nú getur hv. þm. haldið áfram að kveða upp harða dóma, vegna þess að hann fellur sjálfur undir hvern þann dóm, sem hann kveður upp. Ég þarf ekki að tala meira í þessu máli, vegna þess að hv. þm, hittir sig sjálfan fyrir, hvar sem hann leitar útgöngu.